141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá ósk sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni um að farið verði með málið eins og hann lagði til.

Það sem hefur gerst í meðförum þingsins, eða ríkisstjórnarinnar öllu heldur, er að á rammaáætlun hefur sú breyting orðið frá því sem upp var lagt með að það eru komin augljós pólitísk fingraför á málið, það er verið að rjúfa alla möguleika á því að ná góðri sátt um rammaáætlun.

Tillaga sú sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram snýr að því að hægt verði að ná þessari sátt, að við nýtum tillögur sérfræðinganna, þá einkunnagjöf sem liggur fyrir um virkjunarkosti þannig að ná megi fram pólitískri sátt þar sem allir þurfa að ganga undir það að ná slíkri sátt. Það er hægt með leið Sjálfstæðisflokksins sem hér hefur verið nefnd. Þess vegna teljum við skynsamlegt að málið komi strax fram þannig að hægt sé að ræða það samhliða og ganga líka til atkvæða.

Svo er líka hin leiðin, þ.e. að geyma málið núna. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem hastar. Nær væri að klára vinnuna í nefndinni, það er alveg hárrétt að það er mikið að gera þar, og taka síðan þessi mál saman.