141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það blasir við öllum að þetta góða mál forklúðraðist í höndunum á tveimur hæstv. ráðherrum á síðustu metrum þess máls. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt, við gerðum breytingar á lögunum um rammaáætlunina þar sem gert var ráð fyrir að hæstv. tveir ráðherrar færu höndum um málið og tækju afstöðu til ábendinga sem kæmu fram, m.a. um upplýsingar sem ekki hefðu legið fyrir þegar verkefnisstjórnin afgreiddi málið frá sér. Nú liggur hins vegar fyrir að hæstv. ráðherrar gerðu það ekki nema í þeim tilvikum þegar það hentaði þeim og þeirra pólitíska málstað. Það liggur til dæmis fyrir varðandi aðra virkjunarkosti að þar komu fram upplýsingar um að verið væri að vinna að málinu hjá verkefnisstjórninni á grundvelli gagna sem voru ekki þau nýjustu. Fyrir mannleg mistök, eins og það var orðað af formanni nefndarinnar, bárust nýjustu gögnin ekki þannig að það liggur fyrir að þessi mál voru ekki rædd á efnislegum grundvelli. Þess vegna er svo mikilvægt (Forseti hringir.) að þessu máli sé aftur vísað til gömlu verkefnisstjórnarinnar þannig að hún geti lokið því af því að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir og ráðherrarnir klúðruðu þessu.