141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:28]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég mun í ræðu minni aðallega gera grein fyrir fyrirvara mínum við nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Að baki 2. áfanga rammaáætlunar liggur mikil vinna við erfiðar aðstæður, of lítinn tíma, skort á gögnum og takmarkað fjármagn. Ég skrifa undir nefndarálit meiri hlutans þar eð ég tel að vinna við 2. áfanga sé skref fram á við á þessu málefnasviði í heild sinni jafnvel þótt ferlið og niðurstöðurnar séu langt frá því að vera hafnar yfir gagnrýni. Ég geri því sterkan fyrirvara og flyt breytingartillögur ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur.

Það er mat mitt að óbreytt tillaga afhjúpi alvarlegt misræmi í því hvernig Alþingi túlkar og framfylgir lögum sem það sjálft hefur sett samhljóða. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, er tilgreint að í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falli virkjunarkostir sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem koma fram í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.

Ef fyrirliggjandi tillaga verður samþykkt óbreytt er verið að ganga gegn þeirri skyldu, að mínu mati, að fella í biðflokk þá virkjunarkosti sem afla þarf frekari upplýsinga um. Misræmið felst í því að úr orkunýtingarflokki í biðflokk eru bara færð sum en ekki öll þau svæði þar sem fyrir liggur að veigamiklar upplýsingar skortir áður en endanleg og fagleg ákvörðun getur í reynd verið tekin um afdrif þessara svæða.

Frú forseti. Það liggur fyrir að sex virkjunarkostir sem sérstakur flokkur, í áliti meiri hlutans kallaður formannaflokkur, lagði til að yrðu settir í orkunýtingarflokk eru nú færðir í biðflokk, þ.e. Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun 1 og Hágönguvirkjun 2. Var það gert með þeim rökum að kanna þyrfti nánar einstaka áhrifaþætti þessara virkjunarkosta.

Í nefndarálitinu er þessi breyting rökstudd með vísun til 5. gr. laga nr. 48/2011 og að hér sé unnið í samræmi við þá varúðarreglu umhverfisréttarins að náttúran njóti vafans. Ekki sé nauðsynlegt að sanna með óyggjandi hætti að náttúran beri skaða af ákveðinni framkvæmd heldur skuli hagsmunir náttúrunnar virtir og njóta forgangs þegar vísindaleg óvissa er fyrir hendi. Þessi sjónarmið eru í fullu samræmi við alþjóðasamninga og íslensk lög á sviði umhverfisréttar. Í þessu sambandi má minna á að iðnaðarráðherra óskaði eftir því við verkefnisstjórnina á árinu 2007 að hún semdi drög að reglum sem hefðu það að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðvarma og skyldi í því starfi, eins og segir orðrétt, með leyfi frú forseta, „taka tillit til viðeigandi alþjóðasamninga og yfirlýsinga sem Ísland á aðild að, m.a. Ríó-yfirlýsingarinnar og meginreglna umhverfisréttar“.

Varúðarreglan skipar þar öndvegi. Gagnrýnisverðra þversagna gætir bæði í flokkun flokkunarhópsins og nefndarálitinu gagnvart þessari meginreglu. Í þessu samhengi verð ég að benda á að nægir samþykktir virkjunarkostir eru þegar fyrir hendi til að fullnægja orkuþörf um nokkuð langa framtíð auk annarra ónefndra kosta, svo sem að stækka þegar starfræktar virkjanir, með því að nýta fyrirliggjandi orku betur og huga að nýjum tegundum virkjana, svo sem djúpborun, vindorku og sjávarföllum.

Fyrir liggur að ekki er þörf á því á næstunni að virkja fyrir innanlandsmarkað almennings og atvinnuvega, annarra en stóriðju vilji menn ganga lengra á þeirri óheillabraut. Reyndar má ljóst vera að virkjunarkostir sem samstaða er um og virkjanir sem eru í byggingu og aðrar heimilaðar virkjanir hrökkva til umtalsverðrar orkusölu til stórnotenda. Orkufyrirtækin hafa einfaldlega úr nógu að moða og við þetta má bæta þeirri staðreynd að ekki eru fyrir hendi stórir orkusölusamningar og einnig skortir fjármagn til að hefjast handa við virkjanir sem grænt ljós hefur verið veitt á nema með því að velta meiri kostnaði yfir á almenning eins og þegar hefur verið gert.

Ég vil líka minna á að tilskilið og ásættanlegt orkuverð, þ.e. kaupverð frá stóriðju eða öðrum, er ekki í boði. Þessar staðreyndir sýna glöggt að flokkun fleiri virkjana í biðflokk til frekari rannsókna og upplýsingaöflunar er ekki til þess fallin að orkufyrirtækjum sé settur stóllinn fyrir dyrnar, fjarri því.

Frú forseti. Hér er ástæða til að nefna eitt dæmi til frekari skýringa. Orkuveita Reykjavíkur hefur áform um byggingu Hverahlíðarvirkjunar en framkvæmdir eru ekki hafnar umfram boranir á árunum 2006 og 2007. Upplýst er að tafir á verkefninu skýrast af þremur þáttum, að fjárhagsstaða Orkuveitunnar leyfir ekki svo miklar fjárfestingar, fyrirvaralaus samningur um orkusölu frá fyrirhugaðri virkjun liggur ekki fyrir og ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss.

Enn alvarlegra er að fyrir liggja þær upplýsingar að Orkuveita Reykjavíkur telji nauðsynlegt að finna viðunandi lausn á þeim vandamálum sem komið hafa upp í rekstri Hellisheiðarvirkjunar áður en ákvörðun verður tekin um byggingu Hverahlíðarvirkjunar. Hvað er því þá til fyrirstöðu að Alþingi setji Hverahlíðarvirkjun í biðflokk eins og Orkuveita Reykjavíkur hefur í raun gert?

Umrædd vandamál felast í niðurdælingu affallsvatns, manngerðum jarðskjálftum í tengslum við hana og mengun vegna losunar brennisteins í andrúmsloftið, svo mikillar að Orkuveita Reykjavíkur hefur beðið um undanþágu frá mengunarreglunum. Við þetta má bæta því að niðurdælingin kann að hafa áhrif á grunnvatn og orkunýtingin er rétt um 10% sem er gjörsamlega óásættanlegt og algjörlega andstætt reglum um sjálfbæra þróun. Sömu vandamál eru eðlilega uppi við virkjanir á háhitasvæðum annars staðar á landinu. Upplýsingar skortir einnig um afleiðingar þessara vandamála, einkum brennisteinsmengunar og niðurdælingar.

Framanrituð rök og mörg fleiri ættu í ljósi varúðarreglunnar að leiða til þess að margar virkjanir á háhitasvæðum í orkunýtingarflokki ættu að flokkast í bið. Hér má bæta því við að þung rök hníga að því að virkjanir í Bjarnarflagi kunni að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á náttúruperluna Mývatn og lífríki þess.

Fram hefur komið fyrir nefndinni að affallsvatn sem fellur til við boranir í Bjarnarflagi við Mývatn sé nú þegar farið að ógna lífríki á svæðinu. Það er óásættanlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er óásættanlegur vafi, það eru þung biðflokksrök.

Í álitinu segir um nýtingu háhita til raforkuframleiðslu, með leyfi frú forseta:

„Efasemdir og áleitnar spurningar hafa vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, um mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.“

Það felst þversögn í því að setja ný háhitasvæði í orkunýtingarflokk. Hitaveitu Suðurnesja ætti til að mynda að nægja að svo stöddu að halda sig við röskuð svæði á Reykjanesi en fara ekki inn á ný óröskuð svæði. Því verður líka að halda til haga að orka í borholum gengur smám saman til þurrðar og stöðugt þarf að bora nýjar. Nýtingin er sem sé ágeng og ósjálfbær.

Öll rök, einnig lagarök eins og fyrr er rakið, standa til þess að færa ýmis háhitasvæði úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þessi sjónarmið og fleiri eru ítarlega rökstudd í umfjöllun í áliti meiri hlutans í kafla um háhitasvæðin á Reykjanesskaga. Meiri hlutinn er hins vegar ekki sjálfum sér samkvæmur. Í stað þess að fylgja eigin rökum og ábendingum í öllum vafaatriðum sem tengjast háhitasvæðunum og jarðvarmavirkjununum ákveður meiri hlutinn að láta þetta hafa ófullnægjandi áhrif á hina eiginlegu niðurstöðu.

Niðurstöðurnar bera vott um pólitískar málamiðlanir en ekki fagleg sjónarmið eins og leiðin átti að vera vörðuð með hvað varðar virkjanir á háhitasvæðum sem settar hafa verið í orkunýtingarflokk. Í sérstakri breytingartillögu mun ég víkja að þessum háhitakostum.

Í nefndaráliti meiri hlutans er að finna ítarlega umfjöllun um einstaka kosti og svæði, um Þjórsá neðanverða, Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir, 1. og 2. áfanga, Farið, Hagavatn og Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjanir. Hér er um að ræða virkjanir sem flokkaðar voru í orkunýtingarflokk samkvæmt drögum sem send voru til umsagnar í ágúst 2011 en eru samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu settar í biðflokk. Um virkjanir í neðanverðri Þjórsá ályktar meiri hlutinn að samkvæmt skilgreiningu laga nr. 48/2011 beri að setja þá þrjá virkjunarkosti sem um ræðir í biðflokk, fyrir liggi að upplýsingar skorti til að unnt sé að setja kostina í orkunýtingarflokk. Er tekið undir þá niðurstöðu og ítarlegan rökstuðning meiri hlutans.

Hvað Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir varðar er lagt til með faglegum hætti og efnismiklum rökstuðningi að þær verði út frá varúðarsjónarmiði settar í biðflokk, náttúran eigi að njóta vafans. Undir það er líka tekið.

Niðurstaðan um Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjanir er studd sömu rökum. Þau ítarlegu og faglegu rök sem meiri hlutinn setur fram um nefndar virkjanir eiga allar við um þær jarðvarmavirkjanir sem ég geri breytingartillögu um að fari í biðflokk. Engu að síður eru þær settar í orkunýtingarflokk. Hér skortir aftur samkvæmni sem er gagnrýnisvert. Gæta verður þess að sömu varúðarsjónarmið gildi um alla virkjunarkosti og að allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir samkvæmt 5. gr. laga nr. 48/2011.

Frú forseti. Það ber brýna nauðsyn til þess að næsta verkefnisstjórn og ráðherra leggi áherslu á sjónarmið varúðar og að fullnægjandi upplýsingar túlki allan vafa náttúrunni í hag. Í fjölda umsagna sem og í máli ýmissa gesta sem komið hafa fyrir nefndina, þar með talið fulltrúa í verkefnisstjórn rammaáætlunar, hefur ítrekað komið fram að enn sárvanti gögn, upplýsingar og rannsóknir á veigamiklum atriðum. Slík þekkingargöt lúta að margvíslegum þáttum, m.a. jarðminjum, gildi landslags og ósnortinna víðerna, útivist, ferðaþjónustu og samfélagsáhrifum virkjana.

Þannig hefur til að mynda komið fram alvarleg gagnrýni á hve mikið vantar upp á rannsóknir á samfélagsáhrifum og að enn þurfi að móta og þróa aðferðafræði og grunngögn fyrir faghóp III. Jafnframt hefur komið fram að faghópur II hafi þróað aðferðafræði jafnóðum og vinnu við rammaáætlun vatt fram þar sem slíka aðferðafræði vantaði alveg auk þess sem grunnrannsóknir á mikilvægum sviðum skorti. Á mismunandi tímapunktum við vinnu rammaáætlunar kom skýrt fram að meiri tími og fjármagn væri nauðsynlegt til gagnaöflunar og úrvinnslu.

Ákvörðun var hins vegar tekin um að notast yrði við það sem tókst að ná í hús á þeim tíma sem gefinn var og fólk þurfti að vinna undir pressu jafnvel þótt vitað væri að veruleg gögn skorti. Þá vantar enn gögn sem uppfylla það skilyrði sem í upphafi var gerð krafa um, þ.e. að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem geta nýtt þessi sömu gæði. Enginn faghópur gerði í raun heildstæða tilraun til að skilgreina og meta slíkt.

Ég tel ljóst að ákvæði laga nr. 48/2011, um hvað séu nægjanlegar upplýsingar, hafi verið túlkuð allt of þröngt og andstætt tilgangi og anda laganna í flokkunarhópnum á lokametrum rammaáætlunar enda hefur komið fram að niðurstaðan hafi komið ýmsum fulltrúum verkefnisstjórnar á óvart þar sem gert hafði verið ráð fyrir að biðflokkur yrði mun stærri en raun ber vitni en bæði orkunýtingarflokkur og verndarflokkur minni. Ítrekað er að svæði sem upplýsingar vantar um eiga lögum samkvæmt að vera í biðflokki. Varúðarsjónarmiðum hefur ekki verið fylgt um marga virkjunarkosti.

Frú forseti. Það er rétt að taka fram að ég tel blasa við að ómetanleg svæði sem nú eru í biðflokki, svo sem Skjálfandafljót, jökulsárnar í Skagafirði og Hvítá í Árnessýslu, eigi heima í verndarflokki. Í þágu sátta til lengri tíma legg ég hins vegar ekki fram tillögur um slíkt heldur treysti því að ítarleg, fagleg og málefnaleg vinna í nýrri verkefnisstjórn leiði fram álit á þessum efnum þegar nægar upplýsingar eru taldar liggja fyrir.

Sem fyrr segir flyt ég ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur svohljóðandi breytingartillögu við tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, með leyfi forseta:

„Liðirnir:

a. „Reykjanesskagi, Reykjanessvæði, 62 Stóra-Sandvík“,

b. „Reykjanesskagi, Svartsengissvæði, 63 Eldvörp“,

c. „Reykjanesskagi, Krýsuvíkursvæði, 64 Sandfell“,

d. „Reykjanesskagi, Krýsuvíkursvæði, 66 Sveifluháls“,

e. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 69 Meitillinn“,

f. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 70 Gráuhnúkar“,

g. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 71 Hverahlíð“,

h. „Norðausturland, Námafjallssvæði, 97 Bjarnarflag“

í b-lið 1. tölul. (Orkunýtingarflokkur) færist í b-lið 2. tölul. (Biðflokkur).“

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir styður einnig þessar tillögur, með fyrirvara þó um Hengilssvæðið. Það tókst ekki að vinna nauðsynlega skjalavinnu í þeim efnum fyrir þessa umræðu og hv. þingmaður mun eflaust gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessa veru í ræðu sinni eða atkvæðaskýringu.

Frú forseti. Ég vil líka taka fram að það sem ég hef sagt og það sem ég stend fyrir er í fullu samræmi við stefnu og stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og hún var sett fram fyrir kosningarnar 2007 og 2009. Allt sem ég hef einnig sagt, frú forseti, hefur beina skírskotun til orkustefnu og orkusölustefnu síðustu áratuga, einkum síðustu 15 ára, sem ég tel gjaldþrota.

Af hverju segi ég að hún sé gjaldþrota? Jú, þegar litið er yfir sviðið og horft á Orkuveitu Reykjavíkur er hún í verulegum fjárhagsvandræðum. Hið sama gilti um Rarik þótt þar hafi tekist að snúa þróuninni við og Landsvirkjun á í erfiðleikum. Af hverju er þetta? Jú, orka hefur verið seld á allt að því kostnaðarverði eða rétt yfir kostnaði sem hefur ekki gefið ávöxtun. Orkuveita Reykjavíkur er komin að fótum fram, og hver borgar svo brúsann? Það er almenningur í landinu, hann borgar brúsann fyrir orkusölu til stóriðjunnar. Ég segi að þetta sé orkustefna pilsfaldaríkiskapítalisma. Ríkið eða sveitarfélögin eiga að borga brúsann en stóriðjan að græða.

Ég verð að minna á að þegar Búrfell var tekið í notkun, 1966 að mig minnir, var því haldið fram, að ég best man, að virkjunin mundi borga sig upp á 40 árum. Það hefði þá átt að vera 2006. Um leið og virkjunin hefði borgað sig upp ætti orkuverð til almennings og minni notenda að lækka umtalsvert. Virkjunin er orðin sjálfrennandi og sjálfbær en verð hefur ekki lækkað, þvert á móti.

Í frétt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 29. nóvember 2012 undir fyrirsögninni „Hækkar raforkuverðið“ segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Hækkar orkuverð til heimila.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir fyrirtækið þurfa að taka á sig hækkunina til stórnotenda, enda sé raforkuverðið bundið í samningum. Öðru máli gildi um smærri viðskiptavini, fyrirtæki og heimili. Raforkuverð til þeirra muni fljótt á litið hækka um nokkur prósent í kjölfar hækkunarinnar. Hve mikið muni skýrast á næstunni.

„Þetta er slæmt. Hækkunin mun koma niður á arðsemi Orkuveitunnar,“ segir Bjarni um áhrifin.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir hækkunina torvelda áform um aðskilnað Landsvirkjunar og Landsnets.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, segir þetta hækka raforkuverð til almennings.“

Allt eru þetta afleiðingar af gjaldþrota orkustefnu og orkusölustefnu síðustu 15–20 ára. Af hverju horfa ekki þeir sem tala hæst fyrir stóriðju og því að virkja sem mest á það með markaðshyggjuaugum í stað þess að einblína á ríkið til að leggja í kostnað og varpa svo afleiðingum af orkusölustefnunni á almenning? Af hverju er ekki horft til hagnaðar og venjulegra markaðssjónarmiða?

Hvar er kapítalismi virkjunarsinna?

Með nýjum forstjóra og nýrri stjórn hefur Landsvirkjun hefur fært upp orkusöluverðið. Það hefur leitt til þess að eftirspurn hefur minnkað, stóriðjukaupendur halda að sér höndum. Þeir hafa haldið að sér höndum og síðan hefur þessi orkusölustefna farið þannig með stóru orkusölufyrirtækin að þau hafa ekkert bolmagn til framkvæmda, þau hafa ekki eigið fé.

Orkuveita Reykjavíkur rær lífróður til að bjarga sér. Núna er hins vegar nokkurn veginn búið að slá af þessa fyrrum gullkálfa sem settu milljarða inn í rekstur Reykjavíkurborgar og ríkisins. Það er búið að höggva þessar mjólkurkýr, það er allt að því búið að gelda þær. Þær geta ekki staðið í samfélagslegum framkvæmdum fyrir almenning á næstu árum vegna afar dapurlegrar fjárhagsstöðu sem er afleiðing orkustefnu og orkusölustefnu síðustu áratuga.