141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta, ég kannast líka við það að menn urðu, ja lyftu brúnum yfir þeirri breytingu sem þarna varð og er alveg full ástæða til að velta því fyrir sér hvernig staðan var áður en til þess kom og hvaða breytingar og af hverju þær voru þá gerðar í flokkunarhópnum. Sumt þekkjum við, og höfum fengið skýringar á, en annað ekki. Síðan gerist það hins vegar að hæstv. ráðherrar og sá hópur tekur aftur til við að breyta, ef má orða það þannig, eða fer í það minnsta að breyta þessu og þá er þetta komið hingað inn og út í pólitík.

Það sem ég er að gagnrýna er að það hefði átt að reyna að leita einhvers konar sátta á Alþingi, í pólitíkinni. Og okkur sem viljum nýta aðeins meira en aðrir en samt ekki fara offari fannst heldur á okkur hallað en ákváðum hins vegar að kyngja því í von um að sátt næðist um þetta en þá fer af stað eitthvert spil við (Forseti hringir.) eitthvert borð sem hæstv. ráðherrar eru að spila.