141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:54]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, algjörlega sammála breytingum sem hæstv. ráðherrar gerðu vegna þess að þær eru í anda laganna nr. 48/2011. Það er ítarlega og vel rökstutt í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ég fellst alveg á það eins og ég lýsti í ræðu minni.

Hrein, fagleg sjónarmið áttu að ráða förinni, þá hefði skapast um þetta sátt. Ég ítreka, biðflokkurinn er til þess að vinna tíma og rannsaka betur og taka af allan vafa náttúrunni í hag. Það gildir um Jökulsárnar í Skagafirði og fleiri, fleiri önnur dæmi. Svo er það auðvitað Alþingi sem á lokaorðið. En besta leiðin til að ná breiðri sátt um málið er að fylgja lögum nr. 48/2011 og taka þetta út frá vísindalegum, faglegum rökum alla leið.