141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:56]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir afskaplega góða ræðu. Ég tek undir hvert orð þar og er honum sammála enda höfum við lengi verið miklir samherjar í þessum efnum.

Ég er í rauninni með bara eina spurningu til hv. þingmanns og hún varðar sáttina. Því er ítrekað haldið fram að það að gera breytingartillögur á því sem fram kom frá svokölluðum flokkunarhópi, hvort sem það eru hæstv. ráðherrar sem taka sér það vald eða þingið, það sé í sjálfu sér atlaga að einhvers konar sátt, jafnvel þó að það fari eftir gildandi lögum og sé samkvæmt því sem Alþingi samþykkti og jafnvel þó að upphaflega — það hefur meira að segja komið fram í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur sem sat í verkefnisstjórninni — hafi verkefnisstjórnin og fulltrúar þar gert ráð fyrir að biðflokkurinn yrði miklu stærri einmitt vegna þess að við blasti að svo mikið vantaði af grunngögnum, grunnupplýsingum og þeim heildargrunni sem við þurfum að standa á til að taka vandaðar ákvarðanir.

Spurningin er þessi: Telur hv. þingmaður að sáttaferlinu sé með einhverjum hætti stefnt í voða ef þær góðu breytingartillögur sem liggja fyrir og ég styð heils hugar eru samþykktar? Og hvernig skilgreinir hv. þingmaður það sáttaferli? Við hverja er þessi sátt? Er það sátt við komandi kynslóðir, er það sátt við framtíðina? Hvernig telur hann að við eigum að halda á málum þannig að við séum í reynd og í verki að stuðla að sátt (Forseti hringir.) til langrar framtíðar?