141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í raun sorglegt að við skulum vera komin í svo miklar deilur sem raun ber vitni um mál, sem lagt var af stað með til að reyna að ná víðtækri sátt um hvert við skyldum stefna í framtíðinni í nýtingu orkuauðlinda landsins. Þær deilur eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Þær ná allt aftur til áratugarins 1950–1960 þegar komin var í gang umræða um að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf með fjölbreyttari atvinnurekstri í landinu, en þá byggðist afkoma þjóðarinnar svo gott sem eingöngu á sjávarútvegi. Þá spruttu upp deilur um hvort við ættum að virkja og efla orkufrekan iðnað í landinu. Þetta hefur verið deilt um allar götur síðan og það verið mikið ágreiningsefni.

Það var árið 1993, þegar meðal annars Sjálfstæðisflokkur var í meiri hluta, að ákveðið var að reyna að ná sátt um þau mál. Þáverandi umhverfisráðherra skipaði starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál. Þeim hóp var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í þeim málaflokki og setja markmið til skemmri tíma, jafnframt sem honum var falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta þá.

Hópurinn skilaði áliti sínu 1995 og þar var lagt til að unnin yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í árslok þess árs setti umhverfisráðherra síðan á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun sem yrði samþykkt af ríkisstjórn og byggð á skýrslum þeirra hópa sem að málinu unnu. Niðurstaðan var lögð fyrir Umhverfisþing 1996 þar sem hún var rædd og farið yfir athugasemdirnar. Að teknu tilliti til þeirra var samin framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í ríkisstjórn 1997 og nefnd Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta.

Í áætluninni segir meðal annars að iðnaðarráðherra skuli í samráði við umhverfisráðherra láta gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar verði tekið tillit til virkjunarhugmynda jafnt í vatnsafli sem háhita, meðal annars með tilliti til orku, getu og hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar sem og hagsmuni allra þeirra sem nýta þau sömu gæði.

Fyrsti áfangi rammaáætlunar fór svo af stað 1999 þegar iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra skipaði sérstaka verkefnisstjórn undir greinargerðinni Maður, nýting og náttúra. Lögð var áhersla á að það ætti að vera hlutverk viðkomandi stofnana, einkum Orkustofnunar og Náttúrufræðistofnunar að standa fyrir rannsóknum viðfangsefnisins og vera þannig verkefnisstjórninni öflugur bakhjarl.

Virðulegi forseti. Það sést vel á þessu hversu langur aðdragandinn var og hver hugsunin var á bak við þetta. Að taka tillit til allra sjónarmiða, jafnt verndarsjónarmiða sem nýtingarsjónarmiða, efnahagslegra þátta, áhrifa á náttúru, áhrifa á ferðaþjónustu o.s.frv. Það hefur farið fram mjög fagleg vinna í þeim hópum sem voru skipaðir til að fjalla um málin og vinnu við fyrsta áfanga rammaáætlunar lauk í nóvember 2003 með skýrslu verkefnisstjórnar um niðurstöðu áfangans.

Svo ég fari nú fljótt yfir sögu var skipuð ný þriggja manna verkefnisstjórn í september 2004 og í skipunarbréfi kom fram að hún skyldi undirbúa fleiri virkjunarhugmyndir til mats og bæta gögn og endurskoða tilhögun ýmissa hugmynda sem teknar voru fyrir í fyrsta áfanga rammaáætlunar. Áhersla var lögð á að fá heildarmat á sem flestum háhitasvæðum og enn fremur var gert ráð fyrir að þörf kynni að vera á að þróa áfram aðferðir við mat á náttúrufari.

Í september 2007 skipaði síðan iðnaðarráðherra 11 manna verkefnisstjórn til að ljúka öðrum áfanga rammaáætlunar. Enn og aftur var Sjálfstæðisflokkurinn í meiri hluta við að reyna að stíga þessi skref sátta, reyna að ná saman ólíkum sjónarmiðum og ólíkum hópum. Við þá vinnu voru skipaðir sérstakir faghópar sem skyldu fjalla um náttúru- og menningarminjar, útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi, efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana og virkjunarhugmyndir og framkvæmdir þeirra. Vorið 2009 var tekin ákvörðun um að sett yrðu lög um meðferð rammaáætlunar. Jafnframt að niðurstöður áætlunar yrðu lagðar fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Frumvarpið var, eins og hefur komið fram í umræðunni, samþykkt samhljóða á þingi með öllum greiddum atkvæðum í maí 2011. Ég held að engum hafi dottið í hug að eftir allt þetta langa ferli og þann sáttarhug og einhug sem ríkti í þeirri vinnu — auðvitað voru mörg sjónarmið uppi og menn tókust á en markmiðið var það eitt að ná víðtækri sátt þar sem allir urðu að gefa eitthvað eftir og við gætum horft til lengri tíma þegar kæmi að því að ákvarða um hvar skyldi virkjað í landinu og hvernig — að ráðherrar mundu svo misnota vald sitt eins og raun ber vitni þegar við lesum þá þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir við samþykkt þessara laga.

Ég held að allir hafi treyst því að málið mundi halda áfram í því ferli sem var búið að koma því í og það hafði verið í í langan tíma. Vonir margra eru því brostnar. Allir eru sammála um að hin faglegu sjónarmið og hin faglega vinna hafi komið fram í nefndarálitum, bæði frá meiri hluta og minni hluta á þingi í dag, þar er vitnað í hin faglegu vinnubrögð. Það virðist vera mikil sátt um það almennt séð að vinnubrögðin hafi verið fagleg og það má því segja að þessi allgóða samstaða sem náðist um störf verkefnisstjórnar og faghópanna hafi verið rofin.

Í ræðum er hægt að fjalla um einstaka virkjunarkosti og er í sjálfu sér áhugavert að gera það, eins og hefur verið komið aðeins inn á í ræðum á undan. Það sem auðvitað stingur helst í augun er hvernig svona augljósum virkjunarkostum, sem mikil samstaða hefur verið um og sem eru komnir mjög langt í undirbúningi, er vikið til hliðar og á hvaða forsendum það er gert. Í raun og veru stenst sú niðurstaða enga nánari skoðun. Það á við um virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár sem almennt hafa verið taldir, m.a. af forsvarsmanni Vinstri grænna, hagkvæmasti virkjunarkostur okkar til að fara í næst, getum við sagt, í vatnsaflsvirkjun.

Ef við horfum á hvaða rök eru notuð af hálfu ráðherranna til að setja þá virkjunarkosti niður í biðflokk í þessari þingsályktunartillögu, segir svo dæmi sé tekið í tillögunni um Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, með leyfi forseta:

„… Kemur fram að áhrif virkjananna á laxfiska í Þjórsá séu talin óljós og þarfnist frekari rannsókna við, samanber umfjöllun um Urriðafossvirkjun hér að framan. Með vísan til þess að afla þurfi frekari upplýsinga um hvaða áhrif Hvammsvirkjun og Holtavirkjun muni hafa á laxfiska í Þjórsá er með þingsályktunartillögu þessari lagt til að virkjunarkostirnir verði flokkaðir í biðflokk. Varúðarsjónarmið liggja að baki þeirri tillögu.“

Þetta er tilgreint sem ástæðan fyrir því að taka þessa virkjunarkosti og færa úr nýtingarflokki niður í biðflokk, þrátt fyrir að komið hafi fram upplýsingar bæði frá Landsvirkjun, Veiðimálastofnun og öðrum þeim sem hafa rannsakað þetta í sennilega meira en tíu ár, að þau rök fái ekki staðist. Í raun og veru sé ekki hægt að rannsaka þau mál frekar, öðruvísi en að fara af stað í fyrstu virkjunina og fá þar endanlegar niðurstöður í þeim rannsóknum sem hafa farið fram. Þær sýna með eins óyggjandi hætti og hægt er að virkjanir munu ekki hafa áhrif á laxastofninn í Þjórsá.

Við getum líka sagt að rökin fyrir því að setja ákveðna virkjunarkosti í verndarflokk orki mjög tvímælis. Það er eins og Norðlingaölduveita sem sagt er að feli í sér mikla röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Hér hefur komið fram, bæði frá heimamönnum og öðrum sem þekkja mjög vel til á því svæði, að eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar á skipulagi og hönnun Norðlingaölduveitu séu áhrifin í lágmarki. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að Norðlingaölduveita sé að þeirra mati hagkvæmasti virkjunarkostur landsins í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti.

Það fara um 0,2 ferkílómetrar af grónu landi undir vatn. Aðeins stærra land af melum og slíku landi. Þeir hafa sagt að þeir mundu halda rennsli í þessum fossum yfir sumarið, eins og það er. Þarna er verið að setja til hliðar virkjunarkost á þeirri forsendu að vernda eigi Þjórsárver, sem að mati þeirra sem gerst þekkja til er talinn hagkvæmasti virkjunarkostur okkar í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Það er líka hægt að horfa á virkjunarkosti sem eru settir í biðflokk en ættu að vera í verndarflokki, ef skýringar og einkunnagjöf frá verkefnisstjórninni eru lesnar. Ég nefni til dæmis Skatastaðavirkjun í Skagafirði. Ef við tökum mat á þeirri einkunnagjöf sem virkjunarkostir fá frá verkefnisstjórninni ættu þeir heima í verndarflokki. Það er ákveðið ósamræmi í því. Það stingur líka í augun að virkjunarkostur eins og Bitra skuli vera settur í nýtingarflokk, en þar er auðvitað aðallega deilt um umhverfisáhrifin út frá loftmengun sem leggur yfir nærliggjandi byggð. Að mati Orkuveitu Reykjavíkur eru lausnir á því máli væntanlegar innan einhvers tíma og það er eðlilegt að bíða þeirra, en að setja virkjunarkostinn í vernd á þeirri forsendu finnst manni ekki geta staðist.

Áhrif af rammaáætluninni sem við fjöllum um hérna eru í raun augljós. Hún mun hafa það í för með sér að sú beina, erlenda fjárfesting sem hefur verið kallað eftir í íslensku samfélagi, og verður að gerast að einhverju eða mestu leyti á vettvangi orkufreks iðnaðar, getur ekki orðið að veruleika. Samkvæmt þessari rammaáætlun verður í nýtingarflokki um stopp að ræða í virkjunarframkvæmdum í landinu fyrir utan þá virkjunarkosti sem nú þegar eru í framkvæmd. Það er mjög bagalegt þegar við horfum á mikla nauðsyn þess, og það er samdóma álit þeirra sem fjalla um alvarlega efnahagslega stöðu okkar, að við skulum standa frammi fyrir því að helsti vonarneistinn í því að geta komið af stað aukinni erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi skuli vera slökktur með rammaáætluninni.

Það er hægt að horfa til margra annarra þátta í samfélagi okkar en það er ekkert sem mun skila sér eins augljóslega og fjárfesting á því sviði. Hún er okkur í raun algjört grundvallaratriði til að hefja hérna viðreisn af fullri alvöru. Við sjáum það ef gluggað er í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar, sem horfir til ársins 2025 og með efnahagslegum áhrifum til ársins 2030, og áhrifin eru auðvitað gríðarleg. Þar er eingöngu horft til virkjunarkosta sem mætti ætla að samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnar mundu lenda í nýtingarflokki.

Ég ætla ekki endilega að fara yfir tölur í því en í samanburði við þau vandamál sem við glímum við, til dæmis í fjárlagagerð núna fyrir árið 2013, er auðvitað alveg stórkostlegur ávinningur af því að fara í svona skipulagt átak þar sem horft er til lengri tíma. Þar sem er verið að horfa til virkjunarkosta sem má ætla að samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnar um rammaáætlun munu lenda í nýtingarflokki, og ætti þess vegna ekki að þurfa að vera mikill ágreiningur um. Þegar hv. þm. Atli Gíslason nefndi það hér að það að fara í virkjunarframkvæmdir í héraði væri eins og að gefa mönnum morfínsprautu og það þyrfti síðan að koma annar skammtur þegar framkvæmdastiginu væri lokið og við tæki nýting raforkunnar frá mannvirkinu, er það auðvitað allt of mikil einföldun á málinu.

Við þurfum ekki annað en að horfa austur á firði til að sjá hvaða áhrif Kárahnjúkavirkjun og uppbygging orkufreks iðnaðar á Austurlandi hefur haft í för með sér, algjöra breytingu á samfélaginu og allri forsendu fyrir byggð á svæðinu. Það er nú staðreynd sem allir sem hafa kynnt sér málið þekkja. Til að mæta þeim vandræðum sem þingið er komið í með þetta mál höfum við sjálfstæðismenn lagt fram frumvarp að lögum sem gerir ráð fyrir því að verkefnisstjórnin sem hefur lokið störfum, verði kölluð saman aftur og lögum verði breytt til að það verði hægt. Henni verði svo falið að ljúka því verki sem hún vann með því að raða virkjunarkostum niður í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Við teljum að það geti verið ákveðin málamiðlun við þessar erfiðu aðstæður að fá þá sem stóðu að því faglega ferli til að ljúka vinnunni. Eins og ég sagði áðan erum við öll sammála um, og það kemur ítrekað fram, að faglega hafi verið unnið í verkefnisstjórninni og faghópunum. Við leggjum til að þeirri vinnu verði lokið á tiltölulega skömmum tíma þannig að hægt verði, strax í byrjun þings eftir jólaleyfi eða um mánaðamót janúar/febrúar, að leggja nýja rammaáætlun fyrir þingið sem það geti þá afgreitt fyrir vorið.

Það er mjög mikilvægt í svo mörgu tilliti að halda áfram virkjunarframkvæmdum í landinu. Það hefur oft verið rætt í þessari umræðu að það snúist um að framtíðarkynslóðir fái að hafa eitthvað um málin að segja. Það er gott og vel. Auðvitað verður rammaáætlun alltaf lifandi plagg og aðstæður munu breytast. Við horfum á möguleika á stækkunum og aukningu á raforkuframleiðslu fæðast í núverandi vatnsaflsvirkjunum okkar og það er jákvætt. Það er með nýrri tækni og meira vatni sem jöklarnir gefa af sér um þessar mundir, sem hægt er að gera það.

Við eigum að skoða þá kosti. Við munum líka sjá breytingar á þeirri tækni sem er notuð við jarðvarmavirkjanir. Við erum enn að þróa og læra á þeim vettvangi eins og alltaf í öllu sem við gerum. Þar munum við sjá, væntanlega í framtíðinni og kannski ekki innan svo langs tíma, aukna möguleika á skáborunum. Þar getum við borað inn undir jarðhitasvæði en þurfum ekki að hafa mannvirkin á staðnum heldur getum verndað viðkvæmari svæði og skáborað inn á jarðhitasvæðin. Síðan getum við byggt virkjunarbyggingarnar, eða það sem tilheyrir orkuframleiðslunni, kannski nokkrum kílómetrum í burtu frá þeim jarðvarma sem verið er að nýta á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Það er eitthvað sem við verðum að gera og verður engin sátt um. Það getur engin sátt orðið um þessa rammaáætlun sem liggur fyrir. Það verður ekki sátt um það á þingi að við setjum stórt stopp til einhverra ára á sviði virkjunarframkvæmda í landinu. Þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á því við þessar erfiðu aðstæður að nýta ekki náttúruauðlindir sínar skynsamlega.