141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Gögnin sem hafa misfarist við Hólmsá á eftir að meta, það er aðalmálið við þau gögn. Það er miður, þau hafa ekki verið metin. Og það er ekki í samræmi við fagleg vinnubrögð að mér og hv. þingmanni sé falið að meta þessi gögn á þann faglega hátt sem ætlast er til að þau séu metin, jafnvel þó við séum hinir bestu menn, gáfaðir, frábærlega menntaðir og vel af guði gerðir að öðru leyti.

Það sem menn verða að átta sig á er að auðvitað getum við haft þetta eins og í gamla daga, tekið hér fyrir hverja einustu virkjun og gert samkomulag okkar á milli um það hvort þetta eða hitt kerið verði virkjað, sett það inn í lög sem síðan standa. Við kusum að hverfa frá þessu. Við kusum að setja upp faglegan feril þar sem við tökum mark á rökum fagmanna og þar sem við tökum mark á mati fagmanna. Í samræmi við þennan feril tel ég að Alþingi geti bara tekið eina ákvörðun um hvern virkjunarkost fyrir sig og hvert landsvæði, fyrir utan það sem komið er fram, og það sé að setja málið (Forseti hringir.) í bið. Það er það sem ég hef gert, tvisvar sinnum þrír kostir í bið, og út af því stafa öll þau læti sem stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) hefur haldið hér uppi.