141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða og athyglisverða ræðu, það er margt í henni sem ég er sammála og mun koma inn á í ræðu minni á eftir. Engu að síður eru nokkrir hlutir sem ég vildi hnykkja á og spyrja hv. þingmann út í.

Fljótlega í ræðu sinni talaði hann um hversu mikilvægt væri að ná sátt í þessu máli og hversu miklar væntingar menn hefðu verið með til þess að þessi aðferðafræði mundi að lokum sætta ólík sjónarmið, þótt ljóst væri að ekki yrðu allir sáttir á ystu endum nýtingar annars vegar og verndar hins vegar. Því vil ég spyrja þingmanninn hvort hann teldi að það hefði ríkt meiri sátt um þetta plagg ef fleiri vatnsaflskostir sem voru í tillögu faghópanna til nýtingar hefðu verið áfram í nýtingarflokki, en þessir sex ekki allir færðir yfir í biðflokkinn. Það má líka nefna að þótt ákveðin virkjun eða virkjunarkostur sé settur í nýtingarflokk þýðir það ekki að hann verði nýttur, heldur að hann verði rannsakaður til fullnustu. Það mundi þá dekka jarðvarmahugmyndirnar sem ég get tekið að nokkru leyti undir með hv. þingmanni.

Annað atriði sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í er meðferð þingsins. Ég spurði hv. framsögumann hér við 1. umr. hvort það væri hans mat að þingið gæti ekki breytt tillögunni sem kæmi fram. Því vil ég spyrja hv. þingmann um það. Mér fannst svar hv. framsögumanns á þann veg að hann teldi að svo væri ekki og hefur hann eiginlega staðfest það með orðum sínum.

Síðan vil ég spyrja hvort það sé ekki fullkomlega eðlilegt að fagnefndin geti breytt tillögum, komist hún að því í sinni vinnu að þær séu rangar, og þá er ég fyrst og fremst að vísa til Hólmsárvirkjunar.