141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er mikið mál sem við ræðum og hefur víðtæk áhrif. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem við ræðum það. Við ræddum það í vor þegar hæstv. iðnaðarráðherra lagði það fram og þá fagnaði ég eins og fleiri þingmenn því að málið væri loks komið fram, því að nægur væri seinagangurinn búinn að vera á málinu í höndum framkvæmdarvaldsins. Bæði hefði vinnunni við að ljúka því frá verkefnisstjórninni seinkað miðað við það sem menn bjuggust við eða vonuðust eftir og eins tók sá tími sem ráðherrarnir tóku í málið ótrúlega langan tíma. Var það fyrst og fremst vegna þess að innanhúss, í flokkum stjórnarinnar voru mjög misjafnar skoðanir. Sú seinkun hefur auðvitað orðið til stöðnunar hvað þetta varðar, það er einn þátturinn í því. Vissulega er hægt að benda á aðra þætti, eins og að ýmis orkufyrirtæki hafa átt í erfiðleikum með að fjármagna slíkar virkjanir og að þeir orkusölukostir sem menn héldu að væru í hendi hafa horfið úr landinu, því miður.

Einnig má benda á að í hagvaxtarspám ríkisstjórnarinnar við fjárlög 2009, 2010 og 2011 var ævinlega búist við því að álver færi af stað í Helguvík og virkjanir sem kæmu þar að væru komnar af stað. Þetta hefur valdið því að atvinnuástandið í landinu er bágbornara en ella væri.

Ég verð að koma aðeins inn á það að verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur árlega haldið fundi, tvo og jafnvel þrjá, með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem aðalspurningin hefur verið þessi: Hvenær hefjast framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár? Hvenær verður boðin út sú starfsemi sem þar á að fara fram? Hvað munu margir vinna þar og hversu lengi eigum við að bíða enn? Síðan hafa verið listaðar upp þær atvinnuleysistölur og sú staða sem er í byggingar- og verktakageiranum er ekki góð, ekki síst í Suðurkjördæmi og á Suðurlandi og Suðurnesjum, sem eru þau svæði sem hafa orðið einna harðast úti fyrir utan höfuðborgarsvæðið hvað varðar atvinnuleysi.

Þetta vil ég segja í upphafi ræðu minnar vegna þess að seinagangurinn í að ljúka málinu hefur hjálpað til við þá stöðnun og haldið atvinnu niðri og fólki frá atvinnu, þannig að fleiri hafa þurft að flýja land, finna sér vinnu erlendis, og hagvöxtur í landinu hefur verið minni en ella.

Hver eru markmiðin með því að setja fram þessa þingsályktunartillögu? Ég ætla að lesa eina setningu í tillögunni, með leyfi forseta:

„Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.“

Ég legg áherslu á að það skal líka skoða bæði efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, ekki einungis umhverfisleg. Þetta er sem sagt fjölþætt skoðun sem þarf að fara fram. Reynt hefur verið að gera það í rammaáætlun hjá verkefnisstjórninni og mjög margir höfðu þær væntingar til þeirrar vinnu að um hana mundi síðan ríkja sátt. Þó verður að segjast eins og er að augljóst var að ekki mundu allir verða sáttir við hana. Ekki meðal þeirra sem vilja ganga lengst í nýtingu eða lengst í vernd.

Ég get sagt sem dæmi að það voru mér veruleg vonbrigði að Norðlingaalda, sem hefur ótrúlega lítil umhverfisleg áhrif, er hagkvæmasti virkjunarkostur landsins og mundi skila okkur miklum þjóðfélagslegum arði, hún lendir ekki inni í rammaáætluninni vegna þess að ákveðið var fyrir fram að setja hana í verndarflokk. Ég verð að segja að það olli mér verulegum vonbrigðum satt best að segja.

En það er rétt að þetta plagg er búið að vera lengi á döfinni og það er líka rétt að vanda þarf það sem lengi skal standa og vinnan átti að vera fagleg og ferlið allt vandað. Ég held að það sé rétt að upphaf rammaáætlunar hafi verið hér á síðustu öld, þetta er orðið nokkuð langt ferli, og rétt að geta þess að upphafsmenn hennar voru ráðherrar Framsóknarflokksins, þeir sem komu því ferli af stað á sínum tíma. Um það hefur verið nokkuð víðtæk sátt að reyna að taka málið úr þeim rifrildis- og upphlaupsstíl sem var um hverja einustu framkvæmd á árum áður og reyna að setja það inn í þennan ramma. En því miður hefur núverandi ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð og kallar sig norræna ríkisstjórn — hún hefur reyndar oft og tíðum misskilið algjörlega út á hvað það gengur. Eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól gengur það út á að reyna að ná sem víðtækastri sátt við sem flesta þannig að á bak við hverja stóra framkvæmd eða stóra þingsályktunartillögu eða frumvörp séu að lágmarki 70–80% þingmanna úr sem flestum flokkum.

Nei, ríkisstjórnin hefur valið það sem sumir kalla hnefarétt, að reyna að fara hér í gegn með mál með minnsta mögulega meiri hluta á hverjum tíma og oft og tíðum hefur hún þurft að reiða sig á stuðning einstakra stjórnarandstöðuþingmanna til að koma málum fram. Þetta mál er eitt af þeim. Af hverju? Jú, vegna þess að þetta verkefni sem átti að vera faglegt hefur breyst í það að verða pólitískt, rammpólitískt.

Ég minntist á það í ræðu minni fyrr í vor hvernig pólitíkin hefði blandast inn í vinnuna og ferlið. Mín skoðun er sú að á tíma þessarar ríkisstjórnar hafi málið orðið sífellt pólitískara og pólitískara, þ.e. að ríkisstjórnin hafi reynt að setja meiri og meiri áhrif sín inn í plaggið. Þau lög sem við samþykktum 2011 í fullkominni sátt um það hvernig við ætluðum síðan að fara með rammaáætlunina — það verður að segjast eins og er að ekki hvarflaði það að mér að hugmyndin væri að nota þau lög til að kollvarpa hugmyndum verkefnisstjórnar með þeim hætti sem hér er gert, að færa nær alla virkjunarkosti sem voru í nýtingarflokki hvað varðar vatnsafl, þ.e. að færa þá úr nýtingarflokki í bið og kollvarpa þannig bæði faglegri vinnu að mínu mati og þeirri sátt sem ég held að hefði getað náðst um það, þó að menn væru auðvitað missáttir. Ekki hvarflaði það að mér að nota ætti þau lög til þess. Ráðherrarnir skipuðu samráðshóp, og ég lagði fram fyrirspurn, líklega hefur það verið haustið 2011, um hvernig sá hópur væri samsettur og hvort hann væri skipaður á grundvelli formlegrar ráðherranefndar. Það kom hins vegar í ljós að það voru fyrst og fremst starfsmenn ráðuneytanna og trúnaðarmenn ráðherranna sem sátu í þeim hópi og einnig var haft samráð við formenn faghópanna.

Svarinu við fyrirspurninni lauk með því að sagt var: „Eftir að umsagnarferli lauk 11. nóvember sl. hafa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra [þáverandi] haft samráð við ýmsa fagaðila sem og þingmenn stjórnarflokkanna við lokafrágang þingsályktunartillögunnar.“

Það er sem sagt augljóst að meiningin var ekki að ná víðtækri sátt við stjórnarandstöðuna. Þetta er því pólitískt plagg núverandi ríkisstjórnar.

Ef við skoðum þingsályktunartillöguna — ég ætla að geyma mér að fara yfir það ferli sem varð hér svo í haust — þá er mjög sérkennilegt að ríkisstjórn sem leggur sérstaka áherslu á umhverfisvernd, leggur í nafni umhverfisverndar meiri áherslu á jarðvarmavirkjanir, hendir nánast öllum vatnsaflsvirkjunum út úr rammaáætlun, virkjunum sem við höfum áratuga reynslu af og þekkjum orðið mætavel að hafa ekki sambærilega fylgiókosti, ef svo má að orði komast, og sumar af jarðvarmavirkjununum þar sem brennisteinsgufur geta verið í óþarflega miklu magni, það er þó misjafnt.

Það hefur komið fram hjá ráðherrum og meirihlutamönnum í umhverfis- og samgöngunefnd og þeim sem styðja þessa tillögu að það hafi verið sérstaklega lagt til grundvallar varúðarsjónarmið gagnvart umhverfinu og þá er nærtækast að nefna þær hugmyndir um svokallað „buffer zone“ eða áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er algjörlega nýtt hugtak. Það hefur hvergi komið fram fyrr en það var lagt fram í þessari þingsályktunartillögu, ekki í vinnu verkefnisstjórnarinnar, hvergi í ferlinu, ekki í lögum um meðferð rammaáætlunar eða neins staðar, herra forseti.

Ég spyr: Hefur aldrei komið til greina hjá hæstv. ríkisstjórn og þeim meiri hluta sem stendur að þessu plaggi að velta fyrir sér varúðarsjónarmiðum gagnvart þeim sem eru atvinnulausir eða þeim þúsundum heimila sem eru of skuldsett? Hefur ekki hvarflað að þeim að það væri skynsamlegt varúðarsjónarmið með tilliti til þess fólks, að það hafi vinnu og möguleika að skapa sér og sínu fólki lífsviðurværi sem ofan í kaupið mundi síðan afla þjóðarbúinu umtalsverðar tekjur og meiri arð, arðsemi og framleiðni þannig að við gætum staðið undir þeim skuldbindingum sem við erum með? Hefur það ekki hvarflað að þeim sama meiri hluta og hæstv. ríkisstjórn að varúðarsjónarmið eigi að gilda við fleiru en umhverfinu? Ég spyr.

Nei, það er augljóst. Það hefur komið fram, meðal annars í ræðum hv. stjórnarþingmanna, að um sé að ræða niðurstöðu sem sé pólitískt plagg, sem miklar líkur eru á að eftir næstu kosningar og nýja ríkisstjórn sé komið fordæmi fyrir því að hver ríkisstjórn leggi fram sína rammaáætlun, sína pólitísku sýn á hvað eigi að virkja og hvað eigi að vernda. Mér finnst það sorglegt að þetta ferli sem hefur tekið hátt á hálfan annan áratug skuli enda í þessum öfgum, vil ég segja.

Í nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason undirritar fyrir hönd okkar framsóknarmanna, en hann situr í umhverfis- og samgöngunefnd, er farið yfir málið enn á ný með sama hætti og niðurstaða hv. þingmanns er, að af öllum þeim vandræðagangi sem þetta mál hefur verið sé það álit 1. minni hluta, með leyfi forseta, „að staldra beri við og kanna hvort ekki sé fært að lagfæra það sem aflaga hefur farið, tillagan verði unnin á ný með niðurstöður og ályktanir verkefnisstjórnar að leiðarljósi. Því leggur 1. minni hluti til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Meðfylgjandi í nefndaráliti hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar er síðan fylgiskjal, umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þ.e. umsögn þess sem hér stendur og situr í atvinnuveganefnd. Það er ein sönnun þess hversu pólitískt þetta plagg er að í vor var málið lagt fyrir af hæstv. iðnaðarráðherra og sent hv. atvinnuveganefnd til umfjöllunar, auðvitað í samstarfi við umhverfis- og samgöngunefnd því að málin skarast sannarlega.

Þegar við komum í haust er búið að snúa öllu á hvolf. Þá leggur hæstv. ríkisstjórn til að nú sé það hæstv. umhverfisráðherra sem leggi málið fram og málið fari til umhverfis- og samgöngunefndar — að sjálfsögðu í samráði við atvinnuveganefnd. En búið var að snúa þessu við, augljós pólitísk teikn á lofti um að menn vilji hafa meiri stjórn á hlutunum. Hugsanlega óttaðist meiri hlutinn að innan atvinnuveganefndar væri meiri skilningur á því að niðurstaða verkefnisstjórnarinnar færi óbreytt í gegn en ekki sú þingsályktunartillaga sem ráðherrarnir komust að, ég veit það ekki, en augljóslega pólitísk merki.

Í atvinnuveganefnd undir stjórn ágæts formanns, hv. þm. Kristjáns L. Möllers, núverandi forseta, undirbjuggum við okkur undir þá vinnu sem við bjuggumst við að fara í strax í haust. Meðal annars fórum við í ágæta ferð um Suðurland, skoðuðum virkjunarsvæði, hlustuðum á ólík sjónarmið þeirra sem vilja vernda og hlustuðum á rök þeirra sem vilja virkja, hlustuðum á rök sveitarstjórnarmanna á þeim svæðum, til að mynda við neðri hluta Þjórsár. Og þakka ber þeim sem hafa hjálpað til við að draga úr umhverfisáhrifum af rennslisvirkjunum í neðri hluta Þjórsár og að niðurstaðan sé orðin nokkuð bærileg og virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár séu ásættanlegur virkjunarkostur. Ég hef hins vegar verið á þeirri skoðun eftir að rök komu fram meðal annars um áhrif á laxastofna og reyndar fleira að skynsamlegt sé að láta duga að setja í nýtingarflokk efri tvær virkjanirnar, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun og láta Urriðafoss vera í bið einmitt til þess að rannsaka betur og kanna áhrifin. Og setja til að mynda inn í Hvammsvirkjun seiðafleytu sambærilega við þá sem á að setja við Urriðafoss og Landsvirkjun hefur verið tilbúin til að gera það. Þá kæmi kannski tíu ára reynsla á þá seiðafleytu hvort hún virkaði og hvort það væri nægjanleg mótvægisaðgerð til að setja við Urriðafoss ef mönnum sýndist svo eftir tíu, tólf ár að skynsamlegt væri að ganga svo langt og virkja þar líka.

Herra forseti. Það sem ég ætlaði að fara aðeins yfir í umsögn minni, ég hef reyndar komið inn á nokkra þætti, eru þessi pólitísku vandræðamál. Ég ætlaði þó að hlaupa hér á öðrum málum en ég mun án efa þurfa aðra ræðu, ég sé að tími minn gengur nokkuð hratt.

Það hefur vakið verulega athygli að sex vatnsaflsvirkjunarkostir voru færðir úr nýtingarflokki í bið en ekki jarðvarmavirkjanirnar, sem eru fyrst og fremst á Reykjanesi og líka ein á Hellisheiði, sem fylgja sannarlega því miður nokkrir ókostir sem enn hefur ekki fundist arðsöm lausn á. Það er vissulega hægt að taka brennisteinsvetni úr útgufuninni en það er ákaflega dýrt og brennisteinsfjöll mundu safnast upp sem enginn veit hvað á að gera við. Áhrif af vatnaflsvirkjunum eru hins vegar mjög vel þekkt og við höfum áratuga reynslu af þeim. Menn eru orðnir nokkuð samstiga í því að um virkjunarsvæðið við Þjórsá sé orðin þolanleg sátt, þó að þar séu vissulega skiptar skoðanir eins og gengur. Ég hef haldið því fram, herra forseti, að það orki mjög tvímælis að taka þessa tvo efstu virkjunarkosti í neðri Þjórsá út, ég hefði talið eðlilegra að þeir væru þarna inni.

Varðandi Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir 1 og 2 sem eru færðar í biðflokk vegna hugsanlegra áhrifa þeirra á verndarsvæði umhverfis Vatnajökulsþjóðgarð kom ég einnig aðeins inn á það á fundi nefndanna, umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar — eða hvort það var kannski bara hjá atvinnuveganefnd, ég man það ekki alveg — að þessi aðferð hafi ekki beina lagastoð. Það kemur hvorki fram í tillögunni né í lögunum um vernd og orkunýtingaráætlun.

Hins vegar kom fram á fundum umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar, þeim sameiginlegu fundum, að hugmyndir um Hagavatnsvirkjun urðu til að mynda fyrst til sem umhverfisverndarmál, þ.e. í tengslum við hugmyndir um að hefta sandfok og það væri ákaflega skynsamlegt. Um það er gríðarleg samstaða í samfélagi ferðaþjónustunnar, sveitarstjórna, heimamanna, landeigenda og margra annarra. Satt best að segja hafa ekki komið fram nein ásættanleg rök fyrir því, að mínu mati, að setja þann virkjunarkost í biðflokk og vil ég benda á að í minnisblaði frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins er einmitt bent á að Hagavatnsvirkjun sé góður kostur sem skynsamlegt sé að setja í nýtingarflokk.

Þá kem ég að lokum að Hólmsárvirkjun sem við höfum rætt allnokkuð um, bæði við fyrstu tilraun við 1. umr. og svo aftur í dag. Það er virkjunarkostur sem heimamenn í Skaftárhreppi hafa lýst miklum stuðningi við. Samfélagsleg áhrif, og þá kem ég einmitt inn á þau markmið sem við á að hafa, eru mjög jákvæð. Sveitarstjórn hreppsins hefur lagt ríka áherslu á að virkjunin verði færð í nýtingarflokk og hefur bent á að það sé hluti af samkomulagi sem þau gerðu við umhverfisráðuneytið á sínum tíma við stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, þ.e. að setja virkjunarkosti inn í aðalskipulagið þrátt fyrir að hæstv. umhverfisráðherra hafi dregið úr hömlu að afgreiða aðalskipulagið og krefðist þess síðan að teknar yrðu út línulagnir að þeim virkjunarkostum ellegar yrði aðalskipulagið ekki samþykkt. Stillti sem sagt þessu litla sveitarfélagi upp við vegg. Við þekkjum það reyndar úr fleiri slíkum dæmum af Suðurlandi, því miður. Það verkefni hefur ekki fengið þá eðlilegu skoðun sem átti að fara fram í verkefnisstjórninni. Fram hefur komið að það voru mannleg mistök. En það er óskiljanlegt að ráðherrarnir hafi ekki nýtt tækifærið sem þeir höfðu til að skoða það (Forseti hringir.) og jafnóskiljanlegt að nefndin, hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hafi ekki heldur nýtt tíma sinn til að vega og meta þá kosti, fá til þess bæra (Forseti hringir.) fagaðila til að koma inn og afgreiða málið og setja Hólmsárvirkjun í nýtingarflokk.