141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á þá er ég algjörlega sammála því að það er ekki gott ef búið er að eyðileggja hugmyndafræðina um að ná svona víðtækri sátt, sem ég óttast að sé búið að gera. Ég sé engin merki þess að meiri hlutinn sé að velta fyrir sér að ná einhverri sátt. Það eru sjö dagar eftir af þinginu fram að jólum og nú skal málinu skellt inn og það klárað á helst núll einni ellegar ætla menn að hrópa að hér fari fram einhverjir biðleikir, málþóf eða hvað þeir vilja kalla það þegar menn taka nauðsynlega umræðu. Sá sem hér stendur er að tala í fyrsta sinn við þessa þingsályktunartillögu, komst ekki að í fyrri umræðu.

Varðandi tillögur sjálfstæðismanna þá hef ég líka hugmyndir um nýjan biðflokk sem mundi væntanlega fara inn sem breytingartillaga við þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þ.e. meðferð rammaáætlunar. Ég tel allrar athygli vert að skoða það. Ég held hins vegar að það væri alveg (Forseti hringir.) mögulegt, ef menn settust niður og vildu ná sátt um þetta plagg, að gera það og setjast svo yfir lögin til framtíðar til þess að við mundum ekki lenda í sömu klemmu aftur og við virðumst vera að lenda í með þetta mál.