141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, eins og fram kom í máli mínu þá tel ég ekki vera málefnaleg rök fyrir því að taka Skrokköldu og Hágöngu, 1. og 2. áfanga, út á þeim forsendum sem gert er heldur hefði verið eðlilegra að þau svæði væru áfram í nýtingarflokki. Það er ekki þar með sagt að þau verði nýtt, það á eftir að rannsaka það betur.

Þá kem ég aðeins inn á það sem er í tillögu minni um að víkka út biðflokkinn eða skilgreina hann upp á nýtt. Ég tel einmitt að það sé skynsamlegt að til sé stór geymslubiðflokkur, mál sem við tökum ekki til afgreiðslu, hvorki til verndar né nýtingar, en hins vegar verði líka að gera um þann biðflokk eða annan biðflokk — ef við viljum ekki setja svæði í nýtingu — tilraun til sáttar, þ.e. að búa til biðflokk til nýtingar þar sem auðveldara væri að fá fjármagn. Síðan sé til stór biðflokkur þar sem við hreinlega geymum okkur verkefni því að við séum ekki tilbúin að taka ákvörðun um það hvort við viljum nýta viðkomandi kosti eða vernda. Ég held að þetta sé skýrasta svar sem ég get gefið varðandi það mál.

Að lokum þá (Forseti hringir.) tel ég að það hafi verið skylda bæði nefndarinnar og ráðherranna að skoða til að mynda gögnin varðandi Hólmsá.