141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú aðferð sem beitt er varðandi rammaáætlunina byggir mikið á trausti vegna þess að við vitum að það hafa verið gríðarleg átök um einstaka virkjunarkosti. Hugmyndafræðin var, eins og margoft hefur komið fram, að færa málið upp úr því hjólfari og í faglegri vinnu. Traust byggir auðvitað á því að menn vilji nálgast verkefnið faglega. Það sem er athyglisvert er í raun og veru að ekki hafa komið fram alvarlegar athugasemdir eða efasemdir um að það hafi ekki verið gert í aðdraganda málsins, eða fram að því að það kom til hæstv. ráðherra. Það sem vekur með manni miklar spurningar er sú staðreynd að hæstv. ráðherrar umgengust málið þannig að þeir ákváðu að taka einhliða afstöðu til athugasemda sem komu um tiltekna virkjunarkosti í því skyni að færa þá úr nýtingarflokki í biðflokk en horfðu hins vegar ekki á miklu alvarlegri athugasemdir í rauninni, m.a. athugasemdir sem lutu að tilteknum mannlegum mistökum sem gerðu það að verkum að (Forseti hringir.) virkjanir sem áttu fullt erindi í nýtingarflokk að allra mati voru þar ekki. Það grefur mjög undan þessu ferli og því trúnaðartrausti sem þarf að (Forseti hringir.) vera til staðar fyrir rammaáætlun.