141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:40]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Í fjölda umsagna um málið ýmissa gesta sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, þar með talið fulltrúa í verkefnisstjórn rammaáætlunar, hefur ítrekað komið fram að enn sárvantar gögn og upplýsingar um veigamikil atriði og gildir það um flesta þá virkjunarkosti í biðflokki ef ég set ef til vill Hólmsárvirkjun í sviga. Slík göt, þekkingargöt, lúta að margvíslegum þáttum, jarðminjum, gildi landslags og ósnortinna víðerna og útivist, ferðaþjónustu og samfélagsáhrifum. Það á enn eftir að móta aðferðafræði fyrir faghóp III og II.

Ég beini því til hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar: Eru þetta ekki rök til að setja virkjunarkosti í biðflokk, sem ég vil frekar kalla rannsóknarflokk, fremur en að setja þá í virkjunarflokk og þeir væru þá í rannsóknarflokk, eða biðflokk, til áframhaldandi málamiðlana og sátta? Ég lít svo á að sáttaferlinu varðandi virkjunarkosti sé ekki lokið með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.