141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, en það sem ég var að segja er að það að setja einhvern kost í biðflokk hefur hingað til þýtt að mjög erfitt sé að fá fjármagn til rannsókna. Ég er líka á þeirri skoðun að til að við séum ekki að flýta okkur um of og búa til óþarfaágreining sé betra að geyma virkjunarkostinn í biðflokki áður en við tökum ákvörðun um að vernda hann eða nýta í stað þess að henda honum í annan hvorn flokkinn með tilheyrandi átökum. Hins vegar hef ég talið nauðsynlegt að hugsanlega verði til nýr biðflokkur, sem gæti heitið rannsóknarflokkur eða eitthvað slíkt, ef við treystum okkur ekki eða höfum ekki nægilegt traust til að setja virkjunarkost í nýtingarflokk. Það þýðir ekkert endilega að við ætlum að nýta hann heldur að við ætlum fyrst og fremst að fá fjármagn til að kanna þau gögn sem til þarf.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim (Forseti hringir.) varúðarsjónarmiðum sem varða umhverfisvernd. Ég hef bara spurt á móti: Eru ekki fleiri varúðarsjónarmið sem þarf að taka tillit til?