141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ræðu hans þó að ég sé ekki sammála honum nema í örfáum atriðum.

Þingmanninum verður tíðrætt um málefnaleg sjónarmið og varúðarsjónarmið og mig langar einmitt að eiga orðastað við hann um það, því að þegar krafist er málefnalegra ástæðna er það krafa um að rök og ástæður heyri beint til máls. Nú varðar auðlindanýting alla jafna nýtingarþörf, virkjunarþörf. Ég get fallist á að atvinnusjónarmið geti komið til álita sem einn liður í slíkri ákvörðunartöku en ekki að þau séu réttlætanleg sem meginforsenda ákvörðunartöku um auðlindanýtingu.

Þess vegna inni ég þingmanninn nánar eftir því þegar hann talar um að gæta þurfi varúðarsjónarmiða með tilliti til atvinnuþarfar: Er þingmaðurinn raunverulega að segja það að (Forseti hringir.) atvinnusjónarmið geti verið meginforsenda ákvörðunartöku við virkjun náttúruauðlinda?