141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum rammaáætlun sem er gríðarlega stórt skref í átt að mikilvægri sátt og til nauðsynlegs jafnvægis á milli þeirra sem vilja nýta landsvæði í þágu orkuframleiðslunnar og svo hinna sem vilja nýta þau á annan hátt. Árið 1999 þegar fyrsta verkefnisstjórn rammaáætlunar kom saman voru framleiddar um 6 teravattstundir af rafmagni hér í vatnsaflsvirkjunum en rétt rúm 1 teravattstund í jarðvarmavirkjunum. Á síðasta ári skiluðu vatnsaflsvirkjanir 12,5 teravattstundum af raforku og jarðvarmavirkjanir 4,7 teravattstundum.

Sá tími sem tekið hefur að ná sátt um virkjunaráform hefur illu heilli verið nýttur til að margfalda ágang á náttúru landsins í þágu raforkuframleiðslu og því miður hefur ekki nægilegt tillit verið tekið til náttúrugæðanna. Tvöföldun á vatnsafli hefur verið nýtt á þessum tíma og nær fimmföldun á jarðvarma á 13 árum. Á meðan tíminn flaug og teymdi rammaáætlun á eftir sér fengum við ekki svo miklu um það ráðið hvert virkjunarkostirnir fóru eða hverjir þeir voru en hér höfum við niðurstöðu sem sátt ætti að geta náðst um í dag. Flokkun sem er í nokkru jafnvægi og byggir á faglegri yfirvegun. Svo er búið um hnúta að ekki sé hægt að færa svæði í vernd eða nýtingu af geðþótta.

Aldrei aftur verður hægt að taka dýrmæt svæði undir virkjunarframkvæmdir án umræðu og er það vel. Tímamótin í rammaáætluninni felast ekki í töflunum sem birtast fremst í þingsályktunartillögunni, þ.e. þar sem virkjunarkostum er raðað í þrjá flokka. Tímamótin og byltingin sem ég vil leyfa mér að tala um í rammaáætlun felst í því að áætlunin myndar ramma utan um dýrmæt náttúrugæði, náttúrugæði sem til þessa hafa verið allt of óvarin fyrir ásókn orkufyrirtækjanna.

Ég er á nefndaráliti meiri hlutans og ég styð að tillagan sem við ræðum hér við 2. umr. verði samþykkt óbreytt, ég styð það algjörlega fyrirvaralaust. Sannfæring mín er að með samþykkt tillögunnar sé stigið ótvírætt framfaraskref í náttúruvernd og í umgengni við landið, jafnframt því sem orkuöflun er settur tiltekinn starfsrammi þannig að sú starfsemi megi búa við meira rekstraröryggi og minni átök þegar að nýframkvæmdum kemur. Í nefndarálitinu setur meiri hlutinn fram mjög margar athugasemdir, ábendingar og leiðbeiningar, bæði til næstu verkefnisstjórnar og til hæstv. ráðherra og geta menn kallað það fyrirvara meiri hlutans í heilu lagi.

Ég ætla að fjalla stuttlega um þær ábendingar og athugasemdir sem snúa að jarðvarmavirkjunum og nýtingu jarðvarmans og þeirri miklu og að því er virðist fyrir marga þeirri óvæntu reynslu sem orðið hefur af vinnslu jarðvarmans á undanförnum 10–15 árum eða svo. Ábendingar meiri hlutans eru dregnar kjarnyrt saman í kafla 13, Um áherslur næstu verkefnisstjórnar og ábendingar til ráðherra, á blaðsíðu 23–25 í þingskjali 526. Við þekkjum hvert hlutverk næstu verkefnisstjórnar er og í athugasemdum með þingsályktunartillögunni er að finna nokkrar leiðbeiningar um það, ég ætla ekki að endurtaka það hér. Undir það tekur meiri hlutinn en telur að næsta verkefnisstjórn eigi einnig að athuga ýmsa þætti áður en skilað er lokatillögu um röðun og flokkun í framhaldinu.

Ábendingarnar snúa að því að næsta verkefnisstjórn kanni sérstaklega þau varúðarsjónarmið sem fram koma í athugasemdum við tillöguna og í sérstökum kafla, sem sagt í kafla 13 í nefndarálitinu, og snúa að orkuvinnslu á háhitasvæðum. Þau atriði sem ég ætla að fjalla aðeins um snúa að sjálfbærni orkuvinnslunnar, að mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, að mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis, að jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar auk þess sem nýtingarhlutfall jarðvarma til raforkuframleiðslu eins og það er núna, 12–14% að hámarki, hlýtur að vera áhyggjuefni.

Í því sambandi er bent á tillögu íslenskra orkurannsókna um rannsóknir á jarðrænum auðlindum á Íslandi þar sem fram kemur að ekki hefur farið fram skipuleg kortlagning á auðlindum gosbeltisins með jarðfræðikortlagningu og viðnámsmælingum, en slíkrar rannsóknar sé þörf til að mynda grundvöll að nauðsynlegri ákvarðanatöku um vernd og nýtingu auðlindanna.

Herra forseti. Áður en ég vík almennt að háhitasvæðunum og renni yfir samantekt á þeim ábendingum sem er að finna á blaðsíðu 23–25 vil ég vekja athygli á tillögu meiri hlutans um rannsókn á landnýtingu á Reykjanesskaga sem er að finna í 11. kafla álitsins á blaðsíðu 16. Er það önnur ábendingin til næstu verkefnisstjórnar, ég nefndi áðan jarðfræðikortlagninguna og viðnámsmælingarnar. Hún er að tillagan um landnýtingu á Reykjanesskaga verði lögð til grundvallar við frekari tillögugerð um kosti og svæði á skaganum og séu þar undir bæði kostir í orkunýtingarflokki og biðflokki. Er þá tillögu að finna í niðurlagskaflanum, 11. kafla, á blaðsíðu 16.

Herra forseti. Ef ég fer yfir ábendingarnar vekjum við athygli á því að flokkun kostar í orkunýtingarflokk er ekki endanleg fyrr en öllum rannsóknum er lokið og virkjana- og framkvæmdaleyfi eru veitt. Við teljum mikilvægt að næsta verkefnisstjórn leggi frekari áherslu á að meta gildi landslags og landslagsheilda, að hún hugi frekar en gert hefur verið að samlegðaráhrifum virkjunarkosta og viðkomandi flutningskerfa raforkunnar frá virkjunarstað til afhendingar. Við teljum mikilvægt að líta á flutningskerfin sem hluta af virkjuninni sem ekki verður rekin án þeirra. Við bendum á að nauðsynlegt sé að mati á jarðminjum verði gert hærra undir höfði, en hér á landi er að finna mikið af einstökum jarðmyndunum sem í sumum tilvikum eru einstakar á landsvísu. Við bendum einnig á að bæta þurfi verulega samfélagsrannsóknir í tengslum við rammaáætlunarstarfið, þróa aðferðafræðina betur og viðmið til að meta áhrif virkjana á nærsamfélagið.

Hér er átt við félagsleg áhrif, samskipti og upplifun, áhrif á atvinnugreinar utan orkugeirans, áhrif á heilsu og menntun og á aldurs- og kynjadreifingu í nærsamfélaginu. Í því sambandi telur meiri hlutinn og brýnt að hæstv. ráðherra bregðist við gagnrýni á aðkomu orkufyrirtækjanna að stjórnsýslu og fjármögnun þeirra á óskyldum framkvæmdum í sveitarfélögum þar sem mikill styr stendur um virkjunarframkvæmdir. Loks leggjum við áherslu á að efla þurfi til muna grunnrannsóknir um bæði útivist og ferðaþjónustu og að nýta eigi betur virkjanir sem þegar hafa verið byggðar.

Herra forseti. Ég sagðist ætla að fjalla stuttlega um þau álitaefni við orkunýtingu á háhitasvæðunum sem verið hafa hvað mest umtöluð og meiri hluti nefndarinnar vekur athygli á og telur að næsta verkefnisstjórn verði að fjalla um sérstaklega. Það er að finna í 10. kafla í nefndarálitinu á blaðsíðu 13. Álitaefnin eru mörg og reynslan í þeim efnum er ólygin og alvarleg og kallar á viðbrögð. Leyfisveitendur verða að gera sér grein fyrir óleystum vandamálum á öllum stigum og orkufyrirtækin verða að sýna fram á getu til að leysa þau áður en ráðist er í meiri háttar framkvæmdir.

Nauðsynlegt er að muna eftir því að öll háhitasvæði landsins hafa verulega mikið verndargildi, eins og fram kemur í úttekt sem Náttúrufræðistofnun Íslands gerði fyrir rammaáætlun fyrir nokkrum árum. Samkvæmt eðli máls felast veruleg umhverfisspjöll í hverri einustu virkjunarframkvæmd á háhitasvæði þar sem er að finna viðkvæma hverahrúðurskán og óvenjulegt og brothætt lífríki. Raskið á þessum svæðum verður strax við rannsóknarboranir og því þarf að fara fram með sérstakri varúð áður en ákveðið er að fara inn á þessi svæði. Þar sem háhitasvæði eru almennt mjög vinsælir áfangastaðir ferðamanna þarf að kanna með mun ítarlegri hætti áhrif virkjana á þeim á ferðaþjónustu og láta fara fram úttekt á útivistarmöguleikum tiltekinna svæða í framtíðinni, ekki síst svæða í grennd við höfuðborgina.

Þau álitamál sem við viljum að skoðuð séu frekar eru mörg og vil ég fyrst nefna sjálfbærni orkuvinnslunnar. Við höfum núna nýja þekkingu, nýjar upplýsingar um sjálfbærni háhitakerfanna sem ekki var þekkt áður. Þótt varmaflæði út um yfirborð jarðar sé endurnýjanleg auðlind, þ.e. auðlind sem endurnýjar sig jafnhratt eða hraðar en af henni er tekið, eru einstök jarðhitakerfi endanleg auðlind ef nýtingin er umfangsmikil eða ágeng eins og því miður hefur verið lenska hér á undanförnum árum.

Því er talið eðlilegt nú með nýrri þekkingu að líta á háhitasvæðin sem námur með endanlegt magn af varma, varmanámur. Við slíkt varmanám gengur orkan smám saman til þurrðar og þess vegna er mikilvægt að hún sé nýtt skynsamlega og af varkárni og að horft sé til sjálfbærrar nýtingar til langs tíma. En eins og við nýtum jarðvarmann nú með jarðvarmavirkjunum eingöngu til raforkuframleiðslu með örfáum undantekningum er ljóst að nýtingin er aðeins 10–13%. Hinn hluti orkunnar fer að mestu til spillis og það er sóun og getur ekki kallast annað en sjálftaka okkar kynslóðar á kostnað komandi kynslóða.

Í öðru lagi við ég nefna mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns. Virkjun háhitasvæðis hefur óhjákvæmilega í för með sér förgun á skiljuvatni og það skiljuvatn eða affallsvatn ber með sér efni og efnasambönd sem mengað geta jarðveg og grunnvatn. Affallsvatn frá virkjunum getur því haft umtalsverð áhrif á umhverfið og möguleika til neysluvatnsöflunar, blandist það grunnvatnsstraumum í nágrenni virkjunar.

Vatnið, neysluvatnið okkar, hreina lindarvatnið okkar er dýrmæt auðlind sem við eigum sannarlega í miklu magni. Við eigum það í óvenjulega miklum hreinleika og horfa margir öfundaraugum til okkar þess vegna. En þeim mun meiri er ábyrgð okkar kynslóðar að eyðileggja þá auðlind ekki með óvarkárni í jarðhitavinnslu vegna hættunnar á að menga grunnvatnið með skiljuvökvanum. En hvað á þá að gera við skiljuvökvann? Sé honum fargað á yfirborði myndast fljótlega lón á yfirborðinu sem stækka og stækka með tímanum eftir því sem kísillinn í affallsvatninu þéttir botn þeirra.

Við bendum á að brýnt sé við hönnun og undirbúning nýrra jarðvarmavirkjana að gæta sérstaklega að hættu á mengun og öðrum umhverfisáhrifum frá affallsvatni svo neysluvatni sé ekki teflt í hættu og dýrmætum náttúrusvæðum. Ég minni á að affallsvatn sem fellur til við boranir í Bjarnarflagi við Mývatn er nú þegar farið að ógna lífríki á svæðinu, það kom fram fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Landvernd og Fuglavernd hafa óskað eftir liðsinni frá útlöndum, frá skrifstofu Ramsar-samþykktarinnar til að fá mat á því til að skoða hvort ekki sé rétt að tilnefna Mývatns–Laxár svæðið á Montreux-lista samþykktarinnar, sem er nokkurs konar válisti Ramsar-svæða sem sérstök hætta stafar af af manna völdum.

Þó að í undantekningartilfelli hafi tekist að nýta affallslón jarðvarmavirkjana til ferðaþjónustu, og þar er auðvitað Bláa lónið efst á lista, er almennt talið að affallsvatnið valdi óæskilegum áhrifum á umhverfið. Þess vegna er í raun aðeins um tvennt að ræða þegar frá líður, annaðhvort að leiða það til sjávar eða koma því aftur djúpt niður í jarðskorpuna.

Það er vandasöm aðgerð að koma affallsvatninu niður í jarðskorpuna, sem í auknum mæli hefur verið gripið til. Þá vilja menn sem sagt skila vatninu aftur niður í jarðhitageyminn. Slík niðurdæling er ekki aðeins kostnaðarsöm og vandasöm vegna þess að passa þarf að skiljuvökvinn blandist ekki vatnskerfum í efri lögum svæðisins eða efri jarðlögum. Niðurdælingin veldur líka alltaf jarðskjálftum. Fram til haustsins 2011 var reynslan sú að skjálftarnir væru ekki mjög öflugir en nýleg dæling á Húsmúla hér uppi á heiði olli þó skjálftum sem náðu um 4 á Richterskvarða. Þess vegna telur meiri hlutinn mikilvægt og leggur áherslu á frekari rannsóknir á því sem kallað er örvuð skjálftavirkni á vegum orkufyrirtækjanna og að slíkar rannsóknar séu ávallt lagðar til grundvallar umhverfismati jarðvarmavirkjana. Það hefur þó ekki verið gert hingað til.

Ef ekki er hægt að dæla skiljuvökvanum niður í jarðlögin er hin leiðin fær, að farga affallsvatninu í sjó. Menn telja hana meinlitla vegna þess að sjórinn hefur hátt efnainnihald og raunar eru mörg efni í jarðhitavatni í lægri styrk en í sjónum og má segja að það sé í lagi ef leiðslur eru lagðar langt á haf út og losunarstaðir valdir vandlega til að lágmarka áhrif á lífríki sjávar ætti sú leið að vera fær. Hins vegar er hún afskaplega dýr og sjónræn áhrif af völdum lagnanna yrðu umtalsverð. Við sjáum það bara uppi á Hellisheiði hvernig net af lögnum stinga þar í stúf við annars fallegt umhverfi.

Við hvetjum til þess að sá möguleiki sé þó skoðaður auk annarra svo hægt sé að leggja mat á ólíka kosti við förgun.

Að lokum vil ég fjalla stuttlega um loftmengun af völdum brennisteinsvetnis sem verið hefur mest og lengst í umræðunni. Það vill nú svo til að eitt fyrsta málið sem ég lagði til sem þingmaður á Alþingi Íslendinga, á fyrsta þinginu sem ég sat, á 131. þingi 2007–2008, var tillaga til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af völdum manna í andrúmsloftið.

Hæstv. ráðherra hefur nú í fyrsta sinn sett fram umhverfismörk vegna þessa efnis sem taka eiga gildi á árinu 2014. Því miður hafa rekstraraðilar virkjananna óskað eftir frekari tímafresti til þess að uppfylla kröfur um loftgæði enda hefur komið í ljós að erfitt og dýrt er að losna við efnið úr útblæstrinum. En áhrifin af völdum brennisteinsvetnis sem menn eru farnir að kynnast hér á þéttbýlissvæðinu eru sannarlega neikvæð þar sem mörg háhitasvæðanna eru hér í nágrenni byggðarinnar. Skoða þarf sérstaklega möguleg áhrif slíkrar mengunar á umhverfi og ekki síst á heilsu manna, en líka á eignir svo sem hús og bíla í nágrenni við háhitavirkjanirnar.

Á síðustu árum hefur komið í ljós að hin aukna jarðvarmavinnsla við þéttbýlið hefur valdið fólki vaxandi óþægindum og kann efnið að mati sérfróðra að tengjast sjúkdómum í öndunarfærum. Því blasir við að rannsaka þarf betur áhrif brennisteinsvetnis á heilsu manna og er mikilvægt að tryggja loftgæði í sambandi við útblástur frá jarðvarmavirkjununum.

Við í meiri hlutanum teljum alvarlega meinbugi á því að fjölga enn jarðvarmavirkjunum við þéttbýl svæði, og það kemur fram í þessum kafla, nema lausnir finnist til að draga verulega úr brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum. Gera verður ráð fyrir útblásturshreinsitækjum eða öðrum mótvægisaðgerðum vegna þessarar mengunar við hönnun og uppsetningu nýrra jarðvarmavirkjana í samræmi við áðurnefndar reglur sem ég nefndi í reglugerð frá umhverfisráðuneytinu.

Einnig kemur fram að meiri hlutinn telur að á meðan ekki finnast lausnir til að draga verulega úr brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum sé óvarlegt að fjölga enn slíkum virkjunum í grennd við mestu þéttbýlissvæði landsins.

Herra forseti. Auðvitað verður það kostnaðarsamt en þetta eru varúðarsjónarmið til þess ætluð að draga úr neikvæðum áhrifum vinnslunnar á umhverfið og á heilsu manna. Því kemur hér einnig fram að meiri hlutinn telur eðlilegt að slíkur kostnaður komi fram í verði þeirrar orku sem viðkomandi virkjun framleiðir.

Ég hef hér gert grein fyrir forsendum fyrir þeim ábendingum sem meiri hlutinn beinir til næstu verkefnisstjórnar. Ég endurtek að tillagan er að mínu mati ótvírætt framfaraskref í náttúruvernd og til sjálfbærrar nýtingar auðlinda okkar og ég styð hana eindregið.