141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að hv. þingmaður endaði andsvar sitt á að ræða um áhrifasvæði og nefndi Þingvallavatn, þjóðgarðinn og áhrifasvæði þar. Eins og við þekkjum eru virkjanir í Soginu og virðast ekki hafa haft stórkostleg áhrif á áhrifasvæði til að mynda UNESCO. Sá staður er að minnsta kosti á heimsminjaskrá þrátt fyrir að virkjanirnar séu afhlaupið af vatninu.

Ég ætlaði að spyrja aðeins út í áhrifasvæðið, þetta „buffer zone“. Mér finnst þetta alls ekki liggja nægilega skýrt fyrir og hef spurt: Hversu víðtækt er áhrifasvæðið? Er það einhvers staðar skilgreint í fjarlægðum, lengd eða rúmmáli? Svo spyr ég líka hv. þingmann: Voru hugmyndir um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs kynntar sveitarstjórn Skaftárhrepps þegar samningaviðræður voru við umhverfisráðuneytið, ekki einasta að verið væri að stækka þjóðgarðinn heldur gæti gilt nákvæmlega það sama um ótilgreint svæði fyrir utan þjóðgarðinn, svokallað áhrifasvæði, og það svæði sem væri innan þjóðgarðsins? Ég vildi gjarnan fá svar við þessum spurningum.

Síðan var önnur spurning sem ég vildi spyrja hv. þingmann: Telur hún að jafnvægis eða jafnræðis sé gætt í þingsályktunartillögunni og í meðförum ráðherranna þegar þessir sex virkjunarkostir í vatnsafli eru teknir út en jarðvarmavirkjunarhlutinn sem inni var er ekki tekinn út? Ég spyr sérstaklega í ljósi þess sem hv. þingmaður talaði mjög mikið um, áhættu og galla sem fylgja sannarlega sumum jarðvarmavirkjunum þar sem hlutfall brennisteinsvetnis er hátt. Það væri mjög áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður teldi ekki að það hefði einfaldlega verið skynsamlegra að hafa frekar inni (Forseti hringir.) vatnsaflsvirkjunarkosti.