141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það gæti verið áhugavert að ræða hvort virkjanir í Soginu fengju staðist umhverfismat ef það svæði væri ósnortið nú og við ætluðum að fara í gegn með það. Eitt er víst að þær höfðu gríðarleg áhrif á sínum tíma. Menn hafa reynt og reyna enn að vinna gegn þeim áhrifum og veitir ekki af. Ég tel að miðað við daginn í dag hefði þurft að huga miklum mun betur að því máli.

Ég get ekki svarað því hvort sveitarstjórn Skaftárhrepps hafa verið kynntar þessar hugmyndir um áhrifasvæði um leið og fjallað var um stækkun Vatnajökulsþjóðgarð. Það hljóta þeir að gera sem við það borð sátu. Það sem ég vildi sagt hafa er að það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði, að það gildi nákvæmlega það sama um hið verndaða svæði og um áhrifasvæðið. Um áhrifasvæðið gildir að það sem þar fer fram má ekki hafa áhrif á hið verndaða svæði. Eins og við vitum getur það tekið til grunnvatnsstreymis og mengunar og að það þrengi að útivist eða möguleikum til að njóta náttúrunnar á hinu friðlýsta svæði. Það er ekki rétt að það gildi nákvæmlega hið sama um áhrifasvæðið og um hið friðaða svæði.

Spurt er hvort hér gæti jafnvægis á milli vatnsafls og jarðvarma. Það gerir það að sjálfsögðu ekki í þessari tillögu. Nú er tími minn úti og ég skal reyna að svara (Forseti hringir.) öðru í næstu lotu.