141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þetta eru ákaflega óljós skilaboð. Annars vegar er áherslan í tillögunni, sem hér er verið að fjalla um og meiri hlutinn gerir að sinni í rauninni, á orkunýtingu á háhitasvæðum. Síðan kemur meiri hlutinn og hefur uppi mjög ströng varúðarsjónarmið varðandi alla nálgun þarna og alla nýtingu á þessu svæði og er í raun og veru að sýna fram á með sínum rökum að það sé mjög varhugavert að fara í nýtingu miðað við þá þekkingu sem við höfum o.s.frv.

Hv. þingmaður reynir að svara og segir: Ja, þetta kallar á rannsóknir og þetta verður örugglega dýrt. Þá vil ég spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Telur hv. þingmaður að miðað við þær upplýsingar sem hér eru reiddar fram sé raunhæfur kostur á næstu árum að fara í nýtingu á þeim háhitasvæðum sem eru tilnefnd í nýtingarflokkinn? Í öðru lagi: Hver á að framkvæma þessar rannsóknir? Undir hvaða formerkjum er það gert?

Hv. þingmaður færði fyrir því rök að það væri býsna varlegt að treysta (Forseti hringir.) á orkufyrirtækin í þessum efnum. Er það verkefnisstjórnin sem á að vinna þessar rannsóknir eða hvernig er það hugsað?