141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ágæta ræðu. Ég velti hins vegar fyrir mér eftir að hafa hlýtt á hana hvaða sýn hún hafi á frekari orkuþörf og orkunýtingu í náinni framtíð, kannski þegar litið er til næstu ára. Telur hún að við þurfum, út frá þeim sjónarmiðum sem hún rakti í ræðu sinni, að halda áfram að nýta orkulindirnar, hvort sem um er að ræða jarðhita eða vatnsafl? Eða telur hún að það sé tilefni til að staldra nú við og láta okkur nægja það sem við höfum?