141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sú spurning var einmitt borin upp við fulltrúa Landsvirkjunar á fundi, að mig minnir atvinnuveganefndar frekar en umhverfis- og samgöngunefndar, á fyrri stigum þessa máls. Svar Landsvirkjunar var að í raun og veru þyrftum við ekki að virkja meira. Það væri í reynd ekki þörf á fleiri jarðvarmavirkjunum nema þá vegna stóriðju, það væri einfalt ákvörðunarmál fyrir okkur sem samfélag hvort við vildum virkja meira. Þá eru komin inn önnur sjónarmið en þau hvort það sé raunveruleg þörf fyrir frekari orkunýtingu.

Mín sýn er því sú að ef við þurfum ekki að virkja meira getum við staldrað við. Ég heyrði ekki betur á fulltrúum Landsvirkjunar en að það væri sjónarmið þeirra að full ástæða væri til að staldra við eins og sakir stæðu.

Hins vegar liggur ljóst fyrir að til framtíðar þurfum við að huga að framtíðarorkunýtingu því að það er auðvitað þörf inn í framtíðina. Á allra næstu árum er þó ekki brýn þörf ef marka má þá sem gerst til þekkja í þeim geira.