141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef heyrt það sjónarmið frá Landsvirkjun að hún sem fyrirtæki þurfi ekki á því að halda að virkja meira, þ.e. Landsvirkjun geti vel hugsað sér sín rekstrarmódel þannig að hún sé með þær virkjanir í gangi sem hún hefur og það sé ekki nein þörf fyrir fyrirtækið, út frá rekstrarlegum forsendum, til að virkja, það geti lifað af miðað við núverandi aðstæður. Landsvirkjun er hins vegar aðeins eitt af mörgum fyrirtækjum á því sviði þótt það sé að sönnu stórt.

Burt séð frá þeirri spurningu get ég ekki annað en skilið hv. þingmann þannig að hennar sýn á þau mál sé sú að ekki sé þörf á því að fara í virkjunarframkvæmdir eða frekari orkunýtingarframkvæmdir í náinni framtíð. Ég velti fyrir mér hvort afstaða hennar til rammaáætlunarinnar byggist á því vegna þess að það sem vekur athygli í því, eins og fram hefur komið í umræðunni, er að þær virkjunarframkvæmdir sem okkur sýnast næstar í tíma og að auðveldast væri að fara út í, eru færðar úr nýtingarflokki niður í biðflokk meðan þær framkvæmdir sem sennilega eru dálítið lengra undan vegna annarra ástæðna, þá er ég að vísa til jarðvarmavirkjana, eru settar í nýtingarflokk. Mér sýnist einmitt að þessi rammaáætlun, eins og hún er sett upp, geri ráð fyrir stoppi á næstu árum.