141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þessi spurning um það hvort við þurfum að virkja eða ekki. Svarið við þessu er dálítið afstætt. Það er ljóst mál að til að halda á okkur hita og fá ljós þurfum við ekki á virkjunum að halda. Það má segja kannski að það sé ákveðið lúxusvandamál fyrir okkur sem þjóð að vera með þessa orkugnótt sem við sannarlega höfum. Margar þjóðir eru einmitt í þeim vanda að geta hvorki nýtt rafmagn eða aðra orkugjafa nema þá með ósjálfbærum hætti til þessara grundvallarþarfa samfélagsins.

Það sem við höfum auðvitað verið að gera til viðbótar við þetta er að nýta þessa orku til að auka verðmætasköpun í samfélaginu, atvinnusköpun í samfélaginu o.s.frv. Það er viðfangsefni okkar nú og í framtíðinni að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við getum nýtt þessa orku, ef við svo kjósum, til að auka verðmæti fyrir samfélag okkar og atvinnusköpun jafnframt.

Ég tel að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar sé að segja: Þegar við ætlum að horfa á það að nýta orkuna með einhverjum hætti er áherslan greinilega sú að það verði gert með því að nýta háhitasvæðin. En á sama tíma eru slegnir mjög alvarlegir varnaglar. Mig langar til að reyna að ítreka spurningu mína, sem ég bar fram áðan: Hvaða skilaboð er verið að senda? Annars vegar er tillagan um að hverfa að mestu leyti frá því að setja vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokk en setja þeim mun fleiri háhitavirkjanir í nýtingarflokkinn. En á sama tíma er verið að leggja upp með þann málflutning, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að að mörgu sé að hyggja, margt þurfi að skoða betur, ýmislegt sé mjög varhugavert varðandi nýtingu á háhitasvæðunum. Þess vegna eru það óneitanlega mjög óljós skilaboð um það hvert stefna beri vegna þess að þetta er ekki bara tillaga um vernd, þetta er líka tillaga um nýtingu enda ber þingsályktunartillagan það heiti.