141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er gríðarmikilvægt mál og hefur verið lengi í vinnslu. Það eru 14 ár eða þar um bil frá því fyrst var farið að tala um þetta. Ágætt er að minna á að það var undir forustu núverandi stjórnarandstöðuflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem þessi vinna tók á sig þá mynd að farið yrði í samráð um þetta og reynt að raða hlutunum niður. Það eru því margir sem hafa komið að þessu verkefni.

Hugmyndin var sú að leita leiða til að ná sem víðtækastri sátt um þau svæði sem við viljum nýta og þau sem við viljum vernda. Sett var á fót verkefnisstjórn og þar fór fram mikið samráð og mikil vinna í hópum sem skoðuðu ákveðna hluti. Sú vinna er ekki óumdeilanleg frekar en allt annað sem mannskepnan tekur sér fyrir hendur. Flestir ákváðu að taka þessa vinnu eins og hún var unnin og reyna að sammælast um að fara þá leið að raða þessum kostum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Það sem gerist síðan er að þegar þessari vinnu er lokið og verkinu skilað ákveða þeir stjórnarflokkar sem nú eru við völd að nýta sér heimild í lögunum — ég ætla að orða það þannig — til að fikta í þessum tillögum og röðun. Kom á daginn að gerðar voru breytingar um að taka ákveðna kosti úr biðflokki og setja yfir í verndarflokk.

Að mínu mati varð við það rof á þeirri samstöðu sem mögulegt var að ná um málið, það var gert pólitískt og að mínu mati var það fyrst og fremst gert til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Þetta varð á endanum verndaráætlun Vinstri grænna. Þeir hafa meira og minna allt kjörtímabilið stjórnað öllu þegar kemur að atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu. Samfylkingin hefur látið það algjörlega fram hjá sér fara og ekki sinnt því til að halda lífi í ríkisstjórninni. Úr verður að ríkisstjórnin heldur væntanlega velli vegna þess að búið er að uppfylla helstu kröfu Vinstri grænna.

Ég er ekkert hissa á því að þingmenn Vinstri grænna séu mjög ánægðir með árangurinn. Það virðist vera að takast að hafa hér áfram mikla kyrrstöðu þegar kemur að framkvæmdum og orkunýtingu næstu árin því að ef þessi áætlun verður að veruleika horfum við fram á áframhaldandi stöðnun. Þegar ég segi það á ég ekki endilega við að það þurfi að virkja og virkja fyrir stóriðju, alls ekki. Það kann vel að vera að nóg sé komið af slíku þegar búið er að uppfylla verkefnið í Helguvík. Þá er allt í lagi að menn setjist niður og velti fyrir sér hvort leita eigi í alvöru annarra tækifæra. Það vill nú þannig til að fleiri hafa bankað á dyrnar, en þeir þurfa vissulega orku.

Ég tel að með þessu sé verið að tefja alla slíka vinnu um nokkur ár. Það er sorglegt því að það mun seinka efnahagsbatanum á Íslandi og það mun seinka því að heimilin í landinu rétti úr kútnum. Ég veit ekki hvað það er sem stjórnarflokkarnir, og aðallega þingmenn Vinstri grænna, ætla að benda á sem „eitthvað annað í staðinn“, eins og þeir hafa oft sagt og lítið komið út úr því. Ekki er að sjá að eftir fjögurra ára stjórnarsetu þessara tveggja flokka hafi einhver árangur orðið í atvinnulífinu. Um er að kenna eftirlátssemi Samfylkingar gagnvart öfgum Vinstri grænna og það að halda þurfti þessari vonlausu ríkisstjórn saman.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að líta svo á að sú tillaga sem hér er lögð fram sé ekki mikils virði og í raun einskis virði. Það er búið að taka alla sátt úr þessu og gera þetta að pólitísku máli. Það hefur verið viðurkennt hér í þinginu að það sé þannig. Mig minnir — og nú ætla ég að hafa það nákvæmlega þannig, herra forseti, að segja að mig minnir — að hæstv. umhverfisráðherra hafi sagt að þetta væri að sjálfsögðu pólitískt plagg. Gott, þá er það bara á hreinu. En það þýðir að þeir sem á eftir koma og munu stjórna landinu, hvort sem það er á næsta kjörtímabili eða þarnæsta, geta að sjálfsögðu leikið þann sama leik að hafa þetta sem sína stefnumörkun og ekki reyna að ná víðtækri sátt. Þó að væntanlega sé búið að tryggja þessu máli meiri hluta atkvæða hér á þinginu með einhverjum samningum held ég að það sé ekki nema rétt svo tryggt. Við heyrðum ágæta ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers hér áðan, ekki var hægt að misskilja þá ágætu ræðu með nokkrum einasta hætti.

Ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara í gegnum þessi nefndarálit, ég ætla í það minnsta að gera það síðar í þessari umræðu. Ég ætla kannski að nota tímann til að ræða almennt um pólitíkina sem er í þessu og fylgir.

Ég hef líka áhyggjur af því, og hef lýst því áður, herra forseti, að mér sýnist að eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið sé staðan sú að um 1.000 megavött séu í nýtingarflokki í jarðhita en eingöngu 65–70 megavött í vatnsafli. Við hljótum að spyrja hvort skynsamlegt sé að leggja svona mikla áherslu á jarðhitann þegar flestir eru sammála um að rannsóknir og þekking þar sé takmarkaðri en á vatnsaflinu. Þá veltir maður fyrir sér hvort verið sé að taka óþarfa áhættu með því að beina kröftum í þessa átt.

Þær virkjanir sem eru í nýtingarflokki í vatnsafli eru Hvalárvirkjun og Blönduveita, þ.e. það á að stækka eða auka afköst Blöndu. Blanda er að sjálfsögðu vel þekkt virkjun og hefur gegnt hlutverki sínu afar vel. Það er hins vegar þannig í dag að orka Blönduvirkjunar er flutt um langan veg, þar er að sjálfsögðu eitthvert orkutap. Heimamenn, á Blönduósi til dæmis, í Húnavatnssýslum, hafa mikinn áhuga á að nýta orku virkjunarinnar til hagsbóta fyrir samfélag sitt og telja þar af leiðandi að nýta eigi þá stækkun sem er fyrir hendi í að efla atvinnu á svæðinu. Það er mjög mikilvægt að gera það þar sem þetta er eitt af þeim svæðum, Norðurvesturland allt, sem hefur látið undan síga á undanförnum árum. Uppi eru hugmyndir í Húnavatnssýslu um að reisa gagnaver og er það komið býsna langt, mjög áhugavert verkefni. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að tryggja orku til þess.

Hin virkjunin í vatnsafli er Hvalárvirkjun. Það er ánægjulegt að sjá hana þar inni. Við vitum hins vegar að til þess að hún verði að veruleika þarf meira að koma til en bara að virkja. Það þarf að tryggja að hægt sé að dreifa orkunni frá virkjuninni þannig að hún styrki atvinnulíf á Vestfjörðum. Þetta er ekki mjög stór virkjun, herra forseti, en hún er mjög mikilvæg og sérstaklega fyrir þetta svæði. Því þarf að gera allt sem mögulegt er til að unnt sé að fara í þá virkjun og dreifa orku um svæðið eins og hægt er.

Ég ætla líka að leyfa mér, herra forseti, að gagnrýna röðunina — sem kom reyndar frá verkefnisstjórninni, þannig að það sé nú alveg á hreinu — hvað viðvíkur jökulánum í Skagafirði.

Ég tel mig þekkja það svæði býsna vel og hef verið í sveitarstjórn þar býsna lengi og hef fylgst náið með þessu máli. Mér er ómögulegt að skilja hvers vegna þær virkjanir eru ekki í orkunýtingarflokki. Ég veit að á einhverjum tímapunkti var óhagkvæmt að virkja þar vegna þess að flutningur á orkunni um langan veg dró hagkvæmnina niður. Það er hins vegar mikill áhugi á því heima fyrir að nýta þessa orku þar, í það minnsta hluta hennar, og því er eðlilegt að taka það með í reikninginn.

Að þessu sögðu sýnist mér að eftir vinnu verkefnisstjórnarinnar vanti töluvert mikið upp á að samfélagsleg áhrif, til dæmis á því svæði, séu metin. Áhrifin sem af þessari framkvæmd yrðu, og síðar áhrifin af því að nýta orkuna sem næst virkjuninni, eru gríðarlega mikil. Við sem þekkjum vel til vitum nákvæmlega hvernig það mun allt ganga fyrir sig.

Þarna er um að ræða þrjár virkjanir; Skatastaðavirkjun B og C og svo Villinganesvirkjun. Villinganesvirkjun er sú minnsta af þessum og var á sínum tíma mjög hagkvæm virkjun, þegar þær hugmyndir voru fyrst kynntar.

Eflaust mætti gagnrýna margt fleira í þessu, þ.e. í þessari röðun, en ég ætla reyndar að geyma mér það.

Mér sýnist á umræðunni að þessi tillaga sé málamiðlun milli stjórnarflokkanna, en samt séu menn með efasemdir út af áhrifum jarðhitans, eða þeim framkvæmdum, út af brennisteini og jarðskjálftum og öllu því sem þessu fylgir. Mér finnst svolítið sérstakt að leggja mikla áherslu á þetta.

Að mínu viti er kristaltært að Íslendingar munu þurfa að nýta náttúruauðlindir sínar, þar á meðal orkuna, til að byggja upp atvinnustarfsemi. Það á að sjálfsögðu að gera mjög skynsamlega. Það á að gera á þann veg að fyrir hana fáist sem best verð og þannig að hún skili sem flestum störfum og slíkt. Það á líka að kortleggja hvar við nýtum orkuna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að láta þau svæði sem eru undir þegar kemur að því að framleiða orkuna njóta hennar með einhverjum hætti, en að sjálfsögðu þarf líka að flytja orku til Reykjavíkur og á suðvesturhornið til að tryggja atvinnusköpun og atvinnustarfsemi þar. En það á ekki að vera sjálfgefið að þetta renni allt í eina átt. Það á að vera sjálfgefið, að mínu viti, að menn horfi kannski fyrst næst virkjunarstaðnum og þeim samfélögum sem þar eru, hvort þau geti notið góðs af framkvæmdinni á einhvern hátt. Þar af leiðandi legg ég áherslu á að það sé skoðað með einhverjum hætti.

Ég lýsti efasemdum um það ferli sem tók við eftir verkefnisstjórnina. Það reiptog sem þar varð á milli stjórnarflokkanna, um hvert ætti að setja ákveðna kosti, varð að sjálfsögðu til þess að málið tafðist. Nú er staðan orðin sú að stutt er eftir af kjörtímabilinu og spurning hvort ekki sé einfaldlega betra að fara vel yfir þetta mál vegna þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram og skoða það nánar. Það er ljóst að um þetta verður ekki nokkur einasta sátt hér á þingi. Þetta er svo sem ekki eina málið sem stjórnarflokkarnir hafa haldið á og komið í mikið ósætti. Flest mál hafa verið unnin þannig. Það er ekkert nýtt að sú staða sé uppi. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að ef ríkisstjórnin ætlar að skilja við málið eins og hér er lagt til muni það tefja í allmörg ár frekari uppbyggingu á atvinnu og í efnahagslífi Íslendinga, það muni tefja fyrir endurreisn. Sú endurreisn ætti að vera komin miklu lengra en orðið er. Ég óttast að endurreisnin muni tefjast jafnvel þó að núverandi stjórnarflokkar fari frá völdum, að viðskilnaðurinn verði með þeim hætti.

Á nefndarálitum sem liggja frammi sjáum við að margt er gagnrýnt í þessu ferli öllu. Ferlið er gagnrýnt og samráðsleysið. Það er gagnrýnt að menn hafi farið með þetta út í bæ, hafi farið að skipta á milli sín hvað ætti að fara í verndarflokk og hvað ekki. Ég ætla að leyfa mér að gagnrýna það. Það virðist hafa verið á einn veg sem unnið var, þ.e. reynt var að fjölga eins miklu og hægt væri í verndarflokknum. Ekki var verið að færa úr vernd í bið eða úr bið í nýtingu, alla vega ekki í því magni sem gert var þegar fært var úr bið yfir í vernd. Ég ætla að leyfa mér að deila á það, herra forseti, að menn hafi farið í að togast sín á milli um þessa kosti.

Þetta er að sjálfsögðu pólitískt plagg. Þetta er pólitísk yfirlýsing fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar um að áfram eigi að ríkja stöðnun í landinu þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda. Þetta mun seinka málum, við það verðum við væntanlega að una, þ.e. verði þetta samþykkt. Ég er ekki að gefa mér það, herra forseti, að þetta verði samþykkt í þinginu. Ég vonast enn til þess að menn nái áttum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér síðar í þessari umræðu að fara yfir þau nefndarálit sem liggja frammi. Ég verð að viðurkenna að mér gafst ekki tími til að klára það allt. Ég mun vonandi fá tækifæri til að komast aftur að til að ræða þetta.

Menn hafa gjarnan staðið í þessum ræðustól og talað um stóriðjustefnu. Talað eins og þeir sem vilja nýta auðlindir landsins séu sóðar sem vilji ganga illa um og sóa verðmætum. Það er mjög bagalegt að sitja undir slíku. Það er að sjálfsögðu rangt og ósanngjarnt að halda slíku fram þegar málið snýst um að nýta auðlindir skynsamlega, að vera ekki með neinar öfgar, hvorki í þá áttina að nýta of mikið af þeim né að nýta of lítið af þeim. En mér sýnist að hið síðarnefnda hafi orðið ofan á hér. Ég tel að við það verði varla unað.

Ég kann ekki að segja, herra forseti, hvort hægt sé að breyta þessu með einföldum hætti ef þetta verður samþykkt, ég hef bara ekki kynnt mér það til hlítar. Væntanlega þarf ákveðið ferli að fara af stað en það kann að vera að við getum farið yfir það síðar.

Hér er breytingartillaga frá Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur. Þau leggja til að ákveðnir nýtingarkostir færist úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar í dag og hann færði ágæt rök fyrir máli sínu. Þetta þarf hins vegar að skoða í samhengi við þær tillögur sem komu frá verkefnisstjórninni og skoða betur þær röksemdir sem eru fyrir því að færa þetta.

Eins og staðan er tel ég skynsamlegt að menn samþykki ekki hér í þinginu þessa áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða heldur reyni að leita sátta um málið. Það var ætlunin í upphafi þó að ekki hafi tekist betur til en raun ber vitni.