141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ítarlega og efnismikla ræðu. Ég þakka honum líka fyrir að hyggjast síðar í umræðunni lesa nefndarálit meiri hlutans því að það er, þó að ég segi sjálfur frá, efnismikið og ítarlegt plagg sem skynsamlegt er að kynna sér þegar maður fer í umræðuna. En auðvitað hafa menn mismikinn tíma. Það eru ekki nema 19 dagar síðan nefndarálitið kom fram, 22. nóvember, þannig að það er ekki von að allir hafi haft tækifæri til að kynna sér það.

Hv. þingmaður taldi í ræðunni að tillagan sem hér liggur fyrir væri lítils virði og eiginlega einskis virði. Þá er rétt að spyrja á hverju það byggist vegna þess að breytingarnar frá verkefnisstjórnartillögunni eru sex. Þær felast í því, hv. þingmanni til glöggvunar, að þrír kostir á tveimur svæðum — reyndar má kalla það fimm og hálfan eða hvað það nú er — eru færðir frá tillögum formannahópsins, sem svo er kallaður, og yfir í þingsályktunartillöguna sjálfa, úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Það er ekki um það að ræða að neinn kostur sé færður úr biðflokki í verndarflokk, vegna þess að ég tek eftir að hv. þingmaður hefur misskilið það eitthvað. (Gripið fram í.)

Ég vil spyrja hann hvort það geri tillöguna lítils eða einskis virði að um sé að ræða 6 kosti af 67?

Jafnframt vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé ekki sammála nefndaráliti 1. minni hluta. Þar er sagt að ráðherrarnir hafi tekið hinar vondu ákvarðanir í málinu en að tillögur frá formannahópnum séu góðar. Ég spyr vegna þess að hv. þingmaður hefur ýmsar skoðanir á jökulánum í Skagafirði sem eru í biðflokki af hálfu formannahópsins. Ég þakka honum að öðru leyti kærlega fyrir sína ræðu, en það væri gott að fá að vita hvort hv. þingmaður er sammála eða ósammála nefndaráliti 1. minni hluta, því að ég geri ráð fyrir að hann hafi kannski kynnt sér það. Það er sumsé framsóknarmaðurinn í nefndinni, hv. þm. Ásmundur Einar (Forseti hringir.) Daðason, sem stendur að baki því minnihlutaáliti.