141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru tvö atriði í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem vöktu spurningar hjá mér; annars vegar umfjöllun hans um virkjanirnar í Skagafirði, sem hafa að sönnu fengið minni athygli í þessum umræðum en bæði í þingsal og í nefndarstarfi en hugsanlega mátti búast við. Þessar virkjanir, Skatastaðavirkjanir og Villinganesvirkjun, voru settar í biðflokk af formannahópnum sem skilaði drögum að þingsályktunartillögu. Þær hafa þess vegna ekki verið jafnáberandi í umræðunni og þeir vatnsaflsvirkjunarkostir sem ráðherrarnir tveir, umhverfisráðherra Vinstri grænna og iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar færðu úr nýtingarflokki niður í biðflokk.

Af því hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að þessum kostum í Skagafirði vildi ég spyrja hann örlítið nánar um hvaða skýringar geti hugsanlega verið á því að komist var að þeirri niðurstöðu í ljósi þess að virkjanirnar tvær hafa lengi verið á teikniborðinu, það hafa lengi legið fyrir áætlanir um þær. Kann það að vera eingöngu vegna þess að þær eru umdeildar í heimabyggð en ekki af neinum öðrum ástæðum?

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja hv. þingmann um varðar þá tillögu sem fram kemur í nefndaráliti Framsóknarflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd, í nefndaráliti hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Það er það atriði að vísa eigi málinu aftur til ríkisstjórnarinnar. Ég spyr: Er það ráðlegt?