141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir samspil orkunýtingarinnar og atvinnusköpunarinnar. Það er auðvitað grundvallaratriði í þessu máli. Hér hefur verið spurt í umræðunni: Hvers vegna eigum við að virkja? Þurfum við eitthvað að virkja? Er það knýjandi nauðsyn? Auðvitað er það þannig að við búum við ákveðna tegund af lúxusvandamáli. Við getum sagt sem svo að við þurfum ekki að virkja og komumst alveg af. Það mundi áfram vera hiti í húsum og ljós í bæjum og í húsum þótt við virkjum ekki. Það er aftur á móti vandamál sem margar aðrar þjóðir standa frammi fyrir. Þær þurfa að nýta eða fá orkukosti til þess einfaldlega að samfélagið geti unnið áfram.

Hjá okkur er það auðvitað þannig að við nýtum orkuna til atvinnusköpunar og svo almennrar verðmætasköpunar. Til að búa til og stækka okkar þjóðarköku svo að menn búi við betri lífskjör, hafi vinnu og úr fleiru að spila og til að hægt sé að halda úti ríkissjóði o.s.frv. Á vissan hátt erum við kannski í svipuðum sporum og Norðmenn. Þeir nýta að vísu jarðeldsneyti og geta út af fyrir sig tekið þá ákvörðun sem mér finnst blasa svolítið við í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar: Við þurfum ekki að virkja, samfélagið okkar mundi rúlla áfram. Norðmenn þurfa ekki alla þessa olíu til að knýja skipin sín eða bensínið til að knýja bíla sína. Þeir nýta orkukosti sína í Norðursjónum til að búa til aukin verðmæti, búa sér í haginn fyrir framtíðina og skapa ný tækifæri.

Það samspil er svo mikilvægt og eins og hv. þingmaður nefndi er hægt að nýta þessa orkukosti meðal annars í héraði, eins og Blönduveituvirkjun væri mjög gott dæmi um og gæti á vissan hátt verið forsendan fyrir atvinnusköpun, kannski einkanlega í Húnavatnssýslum. Varðandi Hvalárvirkjun gæti hún fyrst og fremst verið til að auka orkuöryggi á Vestfjörðum en til þarf að koma atbeini ríkisins vegna þess að sú virkjun er ekki nægilega hagkvæm til að standa (Forseti hringir.) undir sér sjálf að öllu leyti.