141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er algjörlega óþolandi að þurfa að hlusta á að búið sé að gera hina grænu orku að einhverri ógn við náttúruna, ógn við uppbyggingu samfélagsins og ógn við náttúruvernd og umhverfisvernd á alþjóðavísu. Slík sjónarmið hafa ekki síst komið fram hjá ákveðnum hópi hér innan lands. En það er svo sannarlega ekki þannig.

Ég minnist þess þegar ég fór fyrir hönd þáverandi utanríkisráðherra til Indlands árið 2006 og opnaði sendiráð okkar þar. Í þeirri ferð hitti ég forseta Indlands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra á hinum mismunandi fundum. Allir töluðu um tvennt varðandi Íslendinga; annars vegar uppbyggingu sjávarútvegs og þekkingu okkar á sviði sjávarútvegs og hins vegar þekkingu okkar á sviði orkuöflunar, sérstaklega vatnsaflsvirkjana. Þeir sýndu jarðvarmavirkjunum okkar mikinn áhuga en einkum vildu þeir ræða hvernig hægt væri að auka samstarf milli Íslendinga og Indverja og að Íslendingar fræddu þá um orkuöflun og orkuþekkingu.

Ég vil hins vegar draga fram það sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á í þessu máli og skiptir mjög miklu máli að mínu mati. Ég hef mínar persónulegu skoðanir á virkjunarkostum og eflaust hv. þingmaður líka. En það sem náðist með öllu þessu ferli, þessu 13–14 ára langa ferli, var að málið var tekið úr pólitískum átakafarvegi og sett í ákveðinn ramma, ákveðinn vinnufarveg, sem var að mínu mati faglegur, þar sem margir gátu komið sjónarmiðum sínum að og ákveðin sátt náðist. Og nú vitum við að vinstri stjórnin er búin að taka málið úr þessum sáttafarvegi og færa það aftur í átakafarveg. Hvað þýðir það? Það þýðir það, ég sagði það líka við fyrri umræðu málsins, að ég tel Sjálfstæðisflokkinn ekki vera bundinn af þessu plaggi ríkisstjórnarinnar, þessu pólitíska plaggi ríkisstjórnarinnar.

Ég vil spyr hv. þingmann, sem er formaður (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins: Mun Framsóknarflokkurinn telja sig bundinn af þessari ályktun ef hún verður samþykkt algjörlega (Forseti hringir.) óbreytt af hálfu þingsins einhvern tíma á vordögum?