141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt að rammaáætlun skuli vera komin á dagskrá þingsins, en umræðu hennar þurfti að fresta fyrr í haust. Mér finnst öllu verra að svo mikilvægt mál skuli vera rætt fram á nótt því að hér í morgun fór fram atkvæðagreiðsla um hvort þingfundur mætti standa lengur en þingsköp segja til um og á þriðjudögum má halda þingfund til miðnættis. Það er með þetta mál eins og önnur, til dæmis fjárlögin í síðustu viku, að forseti Alþingis vill helst að mikilvægustu málin séu rædd um nætur. Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum oft fjallað um það áður hve einkennilegt sé að stærstu málin skuli vera rædd í þinginu á nóttunni, en þetta eru vinnubrögðin sem núverandi ríkisstjórn hefur komið sér upp.

Virðulegi forseti. Nú er til umræðu tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það má segja að þetta sé þingsályktunartillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vegna þess að hér í hliðarsölum er talað um að hún sé gjald Samfylkingarinnar fyrir ESB-umsóknina. Þegar á það er litið og hafðir eru í huga þeir hv. þingmenn sem eru andvígir þessu hjá samstarfsflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingunni, þá kemur bersýnilega í ljós að þeir hafa þurft að lúta í gras.

Við höfum rætt ESB-umsókn Samfylkingarinnar á þessu kjörtímabili. Á þessu þingi ræðum við stjórnarskrá Samfylkingarinnar og á kjörtímabilinu höfum við verið að ræða fiskveiðistjórnarkerfi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þetta eru allt stór mál. Það er einkennilegt þegar svo stór mál koma fyrir þingið að þau skuli vera eyrnamerkt þessum flokkum og keyrð í gegnum þingið án þess að leitað sé sátta í þinginu eða úti í samfélaginu.

Við vitum sem er að stjórnarskrártillögurnar eru í miklu breytingarferli og Samfylkingin ætlar að keyra á það mál á þessu þingi. Við vitum það líka að stjórnarskrármálið, eins og það liggur fyrir þinginu, þ.e. þau frumvarpsdrög sem liggja fyrir, mætir mikilli andstöðu úti í samfélaginu, ekki síst hjá fræðimönnum. Eins er með það mál sem nú er til umræðu, rammaáætlunina. Víðtækt samráð var meðal þjóðarinnar, margir höfðu komið að vinnu þessa plaggs, búið var að vinna það í rúman áratug, en þá var málið sett í uppnám. Þetta eru vinnubrögð, virðulegi forseti, sem ég kann ekki alveg við. Eins og ég talaði um áðan þá eru málin orðin þó nokkur sem ríkisstjórnin hefur farið fram með í ófriði þegar friður hafði komist á í þinginu og úti í samfélaginu.

Orkubúskapur Íslendinga byggist náttúrlega eins og flestir vita á jarðhita og vatnsafli og er orkunotkun hér á landi með því mesta sem þekkist. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er langtum hærra hér en hjá öðrum þjóðum og njótum við góðs af því og erum kunn langt út fyrir landsteinana fyrir þá grænu orku sem við framleiðum. Þess vegna er mjög einkennilegt að í fjárlögum fyrir árið 2013 skuli þurfa fjármagn til að kynna að við höfum græna orku og að ákveðið fjármagn eigi að fara í að reyna að gera Ísland aðlaðandi að því leyti. Við búum ekki við kjarnorkuúrgang frá orkuverum vegna þess að orkan okkar er öll endurnýjanleg og græn. Þess vegna ætti frekar að hefja þá atvinnusköpun að laða hingað til lands fyrirtæki sem vilja bæta ímynd sína á alþjóðavettvangi með því að framleiða vörur sínar með grænni orku. Þetta var komið aðeins af stað fyrir haustdaga 2008, miklar vonir voru bundnar við gagnaversiðnaðinn. Flestir vilja nota græna orku til framleiðslu, plús auðlind okkar sem er kalda loftið hér á landi en á einhvern hátt hefur ríkisstjórninni ekki tekist að halda þessu nægilega vel á lofti og ekki skapað þessum fyrirtækjarekstri samkeppnisumhverfi eins og þekkist annars staðar í Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndunum. Við erum að einhverju leyti búin að missa af vagninum hvað það varðar en við gefumst ekki upp og reynum nú að breyta þessari rammaáætlun Vinstri grænna til að hægt sé að fara að framleiða meiri orku hér.

Það kemur alveg gríðarleg orka frá vatnsaflinu hér á landi og jarðvarmanum. 66% kemur frá nýtingu jarðvarma og munar þar mestu um hitaveitu til húshitunar. Við erum það heppin hér á landi að búa yfir mörgum háhitasvæðum og spörum því mikla brennslu á kolum og olíu til húshitunar þannig að markmiðið með að minnka rafmagnshitun og erfiða olíukyndingu hlýtur að vera markmið allra Íslendinga.

Þarna inn blandast loftslagsheimildir okkar og sá sparnaður sem við Íslendingar höfum sýnt fram á með því að framleiða græna orku. Þess vegna var mjög sorglegt að íslenska ákvæðinu hefði verið hent út þegar ESB-umsóknin var lögð inn vegna þess að í Kyoto-bókuninni á sínum tíma hafði það náðst í gegn að tekið yrði tillit til grænnar framleiðsla okkar, en það er búið að kasta því fyrir róða eins og öðru sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt. Við njótum því engrar velvildar í Evrópu varðandi þetta.

Svo eru frumkvöðlarnir. Mikil orka felst í mannauðinum okkar. Það er verið að gera hér tilraunir með repju, metan og fleiri nýja græna orkukosti sem gera það hugsanlega að verkum að í framtíðinni þurfi vart að kaupa inn bensín eða olíu. Þetta eru það háleitar hugmyndir, eins og með repjuolíuna, að innan fárra áratuga verður hægt að drífa fiskveiðiflotann hér áfram á repjunni einni saman. Þetta eru allt mjög spennandi verkefni sem eru fram undan við þær orkuauðlindir sem við höfum í vatnsafli og jarðhita.

Eins og staðan er þurfum við líka að gera gangskör í því að nýta betur jarðvarmann því að það er mikil sóun í jarðvarmavirkjunum. Ég hef heyrt að allt upp í 85% orkunnar fari út í andrúmsloftið án þess að hægt sé að temja orkuna sem upp úr borholunum kemur. Við verðum að læra og fjárfesta í að beisla orkuna, þá orku sem er til staðar og spanderast nú þegar út í loftið, því að þá getum við enn frekar byggt hér upp orkufrekan iðnað til viðbótar við það sem við ætlum að bæta við af nýjum virkjunum og jarðhitasvæðum.

Eins og við vitum er vatnsafl algjörlega sjálfbær orkuauðlind og við höfum náttúrlega ekkert fyrir henni vegna þess að það þarf bara að rigna til að viðhalda auðlindinni. Jarðvarminn er viðkvæmari að þessu leyti þó að í flestum tilfellum sé um sjálfbæra orkuauðlind að ræða. Það tekur lengri tíma að hlaða inn á kerfið í jarðvarmanum og við eigum því fyrst og fremst að horfa til vatnsfalla og vatnsafls vegna þess að þar streymir algjörlega græn og hrein orka endalaust, ef svo má segja. Þess vegna eru vatnsaflsvirkjanirnar okkar mjög mikilvægar, í þeim felst fyrst og fremst stofnkostnaður og fyrir rest þegar þær eru uppgreiddar þá eru þær eins og mjólkurkýr og gefa af sér í marga áratugi.

Til þessa verðum við að horfa í ljósi þess að árið 2050 er talið að flestar rafmagnsveitur og orkuver annars staðar í Evrópu verði úrelt. Menn eru í stökustu vandræðum með hvernig eigi að leysa þann vanda og þá er fyrst og fremst horft til kjarnorkunnar sem við erum algjörlega laus við og þurfum ekki að hafa áhyggjur af eða spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við eigum að búa til rafmagn með þeirri tækni því að við höfum svo mikið vatnsafl. Þetta er nefnilega spurning, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir losunarkvótanum. Nú er verið að framlengja Kyoto-bókunina til ársins 2020. Það hefur komið í ljós að Evrópusambandsríkin menga orðið meira en þau gerðu þegar skrifað var undir Kyoto-bókunina vegna þess að þau hafa þurft að grípa til þess ráðs að brenna meiri kolum því að orkuverin verða svo hratt úrelt. Þetta er nokkuð sem við verðum að skoða hér á landi.

Gríðarlega mikið afl finnst hér á landi. Áætlað er að það sé um 55–65 þús. gígavattstundir á ári, bæði beislað og óbeislað, en það sem við höfum nú þegar beislað er einungis 30% af nýtanlegri endurnýjanlegri orku, eða sem nemur 17–18 þús. gígavattstundum. Þarna eru því enn virkjunarkostir upp á 60% af nýtanlegri endurnýjanlegri orku. Þess vegna er svo mikilvægt að næstu skref verði stigin í sátt við landsmenn, að varlega verði stigið til jarðar í þá veru hvar skuli virkja næst. Um það á þessi rammaáætlun að fjalla. Hún á að byggja á því faglega mati sem hefur verið í gangi í rúman áratug. Oft hefur verið talað um að stjórnarskrárdrögin sem nú liggja fyrir hafi farið fyrir þjóðfund og þess vegna hafi þjóðin samið þau, en í þessu tilfelli má segja að þeir sem komu að því að semja rammaáætlunina hafi svo sannarlega átt samtal við þjóðina vegna þess að þegar faghópur I var að störfum var staðið fyrir opnum fundum og kallað eftir umsögnum frá þeim sem vildu koma sínum sjónarmiðum að. Þannig að á þessum árafjölda hefur þetta samtal svo sannarlega farið fram og útkoman varð sú að faghópur II skilaði af sér skýrslu sem átti að vera upptakturinn að því hvar ætti að virkja, hvað ætti að setja í biðflokk og hvað ætti að friðlýsa. Afskaplega góð og þörf vinna, fullkomið samkomulag og byggt á faglegum grunni en þá lentum við í þeirri ógæfu, virðulegi forseti, að fá þessa velferðarríkisstjórn til valda sem umbylti þessu samkomulagsplaggi á einni nóttu og setti fram sína eigin pólitísku rammaáætlun. Það eru ólíðandi vinnubrögð að ríkisstjórn á hverjum tíma geti komið og umbylt svo góðri vinnu sem er búin að standa yfir í rúman áratug.

Hvar er framtíðarsýnin? Hver eru framtíðarplönin? Hvernig á að vera hægt að byggja upp íslenskt samfélag ef öllu er kollvarpað við það eitt að rangir flokkar komist til valda í ríkisstjórn?

Nú vísa ég jafnframt í fiskveiðistjórnarkerfið sem hefur þó bjargað okkur út úr því sem bjargað varð eftir bankahrunið vegna gjaldeyrisöflunar, að vísu hefur ríkisstjórnin ráðist á það eins og rammaáætlunina núna. Rúmlega 100 manns hafa þurft að sæta uppsögnum í þeim geira undanfarnar vikur. Þetta er sorgleg staða. Ríkisstjórnin ræðst líka á ferðaþjónustuna, sem gengur vel um þessar mundir, og hækkar skattinn á hana. Það er alveg sama hvar drepið er niður fæti, það er eins og ríkisstjórnin sé fjandsamleg atvinnulífinu, það hefur raunverulega verið staðfest.

Þessi rammaáætlun á sér langa sögu og undirbúningurinn að ferlinu öllu og umhverfisvakning Íslendinga því að árið 1971 voru í fyrsta sinn lög um náttúruvernd samþykkt hér á landi. Umhverfisráðuneytið var stofnað 1990 og átti Framsóknarflokkurinn mikinn þátt í því. Árið 1993 skipaði umhverfisráðherra starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál og var hópnum falið að skilgreina sjálfbæra þróun í þessum málaflokkum og setja fram markmið til skemmri og lengri tíma. Þessi starfshópur skilaði áliti sínu 1995 og lagði til að gerð yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsaflsfallvatna.

Í febrúar 1997 samþykkti síðan ríkisstjórnin framkvæmdaáætlun sem bar nafnið Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi – framkvæmdaáætlun til aldamóta. Í henni kom fram að iðnaðarráðherra skyldi í samráði við umhverfisráðherra láta gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skyldi henni lokið fyrir árið 2000. Þarna var strax komin sú hugsun að gera þetta til langs tíma. Iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti áttu að meta virkjunarkosti í sameiningu þannig að hvorki hallaði á náttúru né iðnað í landinu. Þarna var framtíðarsýnin komin. Síðan líður tíminn og í mars 1999 kynnti sú ríkisstjórn sem þá var starfandi framkvæmdaáætlun undir kjörorðinu Maður – nýting – náttúra; rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þannig að þetta var í stöðugu ferli og, með leyfi forseta:

„Markmið rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þetta var í mars 1993. Síðan er búin að standa yfir mikil vinna sem var ýtt úr vör 1999. Þá voru skipaðir ellefu einstaklingar auk eins í viðbót sem var skipaður formaður og svo voru fjórir af starfshópnum teknir inn í þessa vinnu þannig að alls komu 16 að undirbúningnum að rammaáætlun í upphafi. Það var þessi verkefnisstjórn sem átti samtalið við þjóðina sem ég fór yfir áðan, hélt marga opna fundi, gaf einstaklingum í samfélaginu kost á því að koma með tillögur og úrbætur og ábendingar inn í þessa vinnu.

Við þekkjum framhaldið því að starfshópurinn lauk störfum 2003. Svo var 2. áfangi unninn á árabilinu 2004–2011. Honum lauk með glæsilegri vinnu og mikilli sátt og var hægt að benda á það að þar lægi mjög fagleg vinna að baki og löng. Starfshópurinn skilaði sem sagt skýrslunni og voru flestir með þær væntingar að ríkisstjórnin mundi fara að tillögum hópsins en þá, eins og ég sagði, virðulegi forseti, voru Vinstri grænir komnir í ríkisstjórn og sættu sig ekki við þá faglegu vinnu sem hafði verið unnin, hvað ætti að fara í bið, hvað ætti að vernda og hvar ætti að virkja. Við sitjum uppi með það núna í desember árið 2012, atvinnulífið í uppnámi og störf hafa tapast. Þessi staða er algjörlega óásættanleg.

Framsóknarflokkurinn er fyrst og fremst atvinnumálaflokkur og skilur samspil virkjana og umhverfis. Á umhverfið má ekki ganga nema virkjun sé sett fram í sátt og þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf verið. Hann skilur þetta samspil.

Virðulegi forseti. Við höfum lagt fram tillögu, þ.e. fulltrúi okkar í umhverfisnefnd, um að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin leggi fram upphaflega rammaáætlun sem var samþykkt. Við komum til með að tala hér og rökstyðja okkar mál enn frekar í þessari umræðu til að reyna að opna augu ríkisstjórnarinnar og almennings alls (Forseti hringir.) fyrir því hvað það er mikilvægt að þetta mál fari í rétt ferli.