141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Tækifærið er og var gullið, en þeir þingmenn sem koma hingað á nýju þingi verða ekki bundnir af þessari tillögu ef hún verður samþykkt svona því að þetta er tillaga vinstri flokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, í þá veru að kollvarpa algjörlega því faglega ferli sem hefur átt sér stað á þeim langa tíma sem verkefnisstjórnin hefur þurft til að útbúa skýrslu sína. Eins og ég og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum bent á var afar mikilvægt að verkefnisstjórnin fengi tækifæri til þess einmitt að raða niður virkjunarkostum.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála okkur í Sjálfstæðisflokknum um að það hefði verið skynsamleg leið.

Ég vil í öðru lagi spyrja hv. þingmann út í tillögu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Er það ekki óþarflega mikil bjartsýni að trúa að henni yrði vel tekið þar og unnið vel úr henni á borði ríkisstjórnarinnar miðað við það hvernig hún hefur hagað sér í þessu máli?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að því sem mér finnst líka skipta miklu máli og ég kom aðeins inn á í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, varðandi þekkinguna, þá yfirburðaþekkingu sem við höfum enn þá, við höfum enn þá forskot á sviði orkumála og orkurannsókna á sviði þekkingar er tengist m.a. vatnsaflsvirkjunum, hvort hún deili þeim áhyggjum með mér að með því að setja þetta lok á virkjanir til skemmri tíma, sérstaklega vatnsaflsvirkjanir, muni forskot okkar Íslendinga á sviði vísinda og orkumála minnka í samanburði við aðrar þjóðir.