141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var að mörgu leyti ansi merkileg ræða. Ísland á að framleiða lífrænt ræktaðar vörur til að efla útflutning á Íslandi. Ég veit ekki hvort hv. þm. Magnús Orri Schram trúir því að þetta sé hin öfluga fjárfesting sem við köllum eftir í íslensku atvinnulífi. Hann fullyrðir að fram hafi komið nýjar upplýsingar um þá virkjunarkosti sem voru settir úr nýtingarflokki niður í biðflokk. Varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem almennt eru taldar mjög hagkvæmar bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti er sú eina gagnrýni kynnt sem kemur fram á mögulega laxastofninn í Þjórsá. (MÁ: Mögulegan laxastofn?) Hér er sagt að því sé óhjákvæmilegt að fram fari nýtt heildarmat á umhverfisáhrifum og niðurstaða fengin sem sýni áhrif framkvæmdarinnar á laxfiska í ánni. Á þetta hengja tillöguhöfundar hatt sinn þegar þeir ákveða að færa virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í biðflokk þrátt fyrir að fram hafi komið upplýsingar bæði frá Landsvirkjun og Veiðimálastofnun um að búið sé að rannsaka þennan þátt í á annan tug ára, að ekki verði gengið lengra í þeim rannsóknum en gerðar hafa verið og að endanleg niðurstaða muni ekki fást í raun fyrr en framkvæmdir verða hafnar, eins og alltaf.

Þá er verið að tala um að byrja á efri virkjunarkostunum fyrst, sleppa Urriðafossi í byrjun. Það er ljóst að áhrifin af Urriðafossi geta orðið mest á laxfiskana (Forseti hringir.) en minni af virkjununum fyrir ofan en þar fengist aftur á móti dýrmæt reynsla (Forseti hringir.) á þeim fyrirbyggjandi aðgerðum sem Landsvirkjun ætlar að grípa til í samvinnu við Veiðimálastofnun. Telur hv. þm. (Forseti hringir.) Magnús Orri Schram að þessi rök haldi?