141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel farið svo að hér verði virkjað meira. Ef menn komast að því að það sé skynsamlegt að virkja fara þeir eflaust í það. Við skulum gæta að rammaáætlun og passa upp á að það ferli klárist og taka svo ákvörðun út frá því. En við skulum láta náttúruna njóta vafans og það var fyrst og fremst það sem ég vildi sýna fram á, að við eigum að stíga varlega til jarðar vegna þess að í nútímanum er það svo að þau verðmæti sem felast í umhverfinu verða sífellt veigameiri. Ef við færum í gegnum faghópana á nýjan leik er ég viss um að ásókn ferðamanna og þau verðmæti sem felast í ímyndinni mundu skora hærra hvað snertir fjölmarga þætti en þau hafa gert hingað til.

Það getur vel farið svo að við ákveðum að virkja sem er þá gott. Þá sköpum við verðmæti sem gefa okkur möguleika til þess að sækja fram á öðrum sviðum umhverfisverndar. Þá getum við sett meiri peninga í almenningssamgöngur eða að flokka sorp og náð enn þá betri árangri og sótt fram og gætt að þeirri ímynd sem við viljum báðir varðveita, (Forseti hringir.) ég og hv. þm. Jón Gunnarsson.