141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skýrslu McKinsey-ráðgjafarfyrirtækisins er mikilvægt til framtíðar litið fyrir íslenskt samfélag að styrkja veg útflutningsgreinanna, þessara greina sem byggja á hugviti fólksins, vegna þess að þar gæti Ísland skapað nógu mörg áhugaverð störf fyrir unga fólkið, þar yrði hægt að fá til baka þær fjárfestingar sem settar eru í greinina en það hefur ekki tekist er snertir fjárfestingar í orkugeiranum. Þarna eru sóknarfæri.

Ég er sammála þessari túlkun fyrirtækisins. Ég tel að sóknarfæri íslensks atvinnulífs felist í því að láta þekkingargeirann vaxa sem og hugvitsgeirann, láta fyrirtækin okkar vaxa sem sækja fram til útlanda og selja vöru eða þjónustu byggða á hugviti fólksins. Við eigum að hlúa sérstaklega að þeim geira og það höfum við gert með þeirri fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórn jafnaðarmanna hefur kynnt og snýr til dæmis að aukningu í rannsóknir og þróun þar sem lögð er sérstök áhersla á grænu gildin hvort sem snertir innkaup, fjárfestingarsjóði eða önnur vaxtartækifæri sem hið íslenska atvinnulíf hefur.

Þar tel ég vaxtarsprotana vera. Það getur vel farið svo, virðulegi forseti, að á grundvelli rammaáætlunar sem hér verður vonandi samþykkt innan ekki svo langs tíma taki menn ákvarðanir um að virkja. Við erum byrjuð fyrir norðaustan og það getur vel farið svo að það verði virkjað í neðri hluta Þjórsár. Það er vel ef menn telja það skynsamlega ráðstöfun fjármuna að virkja til þess að skapa störf, t.d. í þeim greinum sem geta borgað hærra verð fyrir rafmagnið en þær greinar sem hafa keypt rafmagnið af okkur hingað til. Það væri ánægjuleg þróun.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við eigum að stíga varlega til jarðar hvað snertir þessi verkefni og ég tel það alveg kristaltært, virðulegi forseti, að sú rammaáætlun sem hér er lögð til grundvallar er í miklu (Forseti hringir.) meiri sátt við náttúruna og þjóðina en þær breytingar sem menn vilja (Forseti hringir.) gera á þeirri rammaáætlun sem nú er til umræðu hér. (JónG: Jarðvarmi í staðinn fyrir vatnsafl, …)