141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einhver siður hjá Samfylkingunni að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Ég vil aðeins fá að koma að því að við hv. þm. Árna Pál Árnason að hér var verkefnisstjórn sem skipuð var þann 8. mars 1999 þar sem lögð var áhersla á að það ætti að vera hlutverk viðkomandi stofnana eins og Orkustofnunar og Náttúrustofnunar Íslands, að standa að rannsóknum á viðfangsefninu og vera þannig verkefnisstjórn öflugur bakhjarl, Orkustofnun á sviði orkumála og Náttúrufræðistofnun ásamt (Gripið fram í.) Náttúruvernd ríkisins í málum sem varða náttúrufar (Gripið fram í.) og mat á verndargildi. (Gripið fram í.) Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að gefa Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum það „kredit“ sem þeir eiga í þessu máli, en að Samfylkingin reyni ekki (Gripið fram í.) að skreyta sig með stolnum fjöðrum (Forseti hringir.) þar sem hv. þm. Árni Páll reyndi að eigna (Forseti hringir.) Samfylkingunni málið. (Gripið fram í: Hvar eru stolnu fjaðrirnar?) (Forseti hringir.) Ég (Forseti hringir.) vil …

(Forseti (ÁÞS): Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur orðið en er jafnframt minntur á að ávarpa þingmenn fullu nafni.) (Utanrrh.: Og ráðherra.)

Ég þarf að hafa frið til að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Ég ætla að gera það þrátt fyrir að ég sé kominn aðeins fram yfir tímann, því að ég átti eftir að leggja fram spurningarnar. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór yfir þann fyrirvara sem hann hafði vegna Holta- og Hvammsvirkjunar. Í ferlinu hafa ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar og ég fór yfir það í ræðu minni áðan. (Forseti hringir.) Mun þingmaðurinn styðja breytingartillögu á núverandi rammaáætlun (Forseti hringir.) sem mundi gera ráð fyrir því að þessir virkjunarkostir yrðu færðir í nýtingarflokk?