141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom hér til að flytja ræðu og gleymdi að spyrja spurningarinnar þar til í lokin. Þá kom nú í ljós að spurninguna hafði hann skrifað áður en ég flutti ræðuna (Gripið fram í.) því að spurningunni var svarað í ræðunni. Þess vegna þarf ég ekki að svara henni (Gripið fram í.) aftur.

Það fer ekki fram hjá neinum sem verið hefur í þingsal frá árinu 2007, ég hef nú ekki verið lengur en þann tíma, hvað þá þeim sem lengur hafa verið hér, hvernig hægt er að bera saman framgöngu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umhverfis- og verndunar- og nýtingarmálum annars vegar og svo Samfylkingarinnar hins vegar. (Gripið fram í: Oohh.) Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að Samfylkingin sé að skreyta sig með stolnum fjöðrum þegar hér er minnt á með hvaða hætti þessi mál voru í lok stjórnartíðar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og með hvaða hætti tekið var á þeim á krafti og einurð eftir að Samfylkingin settist í ríkisstjórn 2007. (Gripið fram í: Vildi Jóhanna ekki Kárahnjúka?)