141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árið 2007 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varð til og þessir flokkar hófu samstarf var það eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins að fylgja eftir þeirri miklu vinnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði staðið fyrir um rammaáætlun, um framtíðarsýn í þessum málum og framtíðarsátt í samfélaginu. Það hefur aftur á móti tekist undir stjórn þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, að koma þessum málum í algert uppnám að nýju, því miður — því miður fyrir þjóðina, því miður fyrir málaflokkinn.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það áðan að hann hefði sett fyrirvara um Holta- og Hvammsvirkjun. Hann fór yfir það að það væru rennslisvirkjanir með lágmarksumhverfisáhrifum og þær væru svo gott sem tilbúnar að hefja framkvæmdir. Í ljósi efnahagslegra aðstæðna í samfélaginu, í ljósi þess að um er að ræða virkjunarkosti sem eru einhverjir hagkvæmustu virkjunarkostirnir okkar í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti, getur þingmaðurinn fallist á að skynsamlegt væri að hafa þá virkjunarkosti í nýtingarflokki (Forseti hringir.) eða telur hann að lengra verði gengið í rannsóknum á (Forseti hringir.) laxastofnum í Þjórsá þrátt fyrir að Veiðimálastofnun og Landsvirkjun hafi sagt (Forseti hringir.) að lengra verði ekki gengið? Rannsóknir hafa staðið yfir í 10 ár (Forseti hringir.) og rúmlega það.