141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það góða við ferlið allt frá 1999 er að mjög margir flokkar komu að því. Ég ætla ekki að fara í einhverja pissukeppni sem byrjuð er hér um hver eigi mesta heiðurinn. Það góða við áætlunina og vinnu verkefnisstjórnarinnar var að allir flokkar sammæltust um að taka málið úr þeim átakafarvegi sem það var í. Síðan tók ferlið það langan tíma, málið var í rannsókn á rannsókn ofan, sem menn vita að eru nauðsynlegar til þess að fylgja málinu eftir þannig að ferlið standist til lengri tíma.

Nú er búið að setja málið aftur í pólitískan farveg. Hv. þingmaður á að vita það manna best að það þarf alltaf að ná sátt við ríkisstjórnarborðið. Sáttin í málinu snýst um að sætta ólík sjónarmið milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í málinu.

Þess vegna segi ég og tek þar undir með hv. þingmanni: Það er valkostur að samþykkja rammaáætlun, en ég tel valkostinn vera þann að taka málið úr þeim pólitíska átakafarvegi sem ríkisstjórnin setti hann aftur í, (Forseti hringir.) og biðja verkefnisstjórnina um að móta forgangsröðun (Forseti hringir.) í virkjunarkostum þannig að við getum verið skuldbundin til lengri tíma en bara (Forseti hringir.) til 27. apríl þegar kosningar verða.