141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að hafa sátt um málið. Það er líka alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að saga málsins er saga verulega góðrar vinnu sem fjöldamargir komu að. Ef maður fer í gegnum gögnin og úrvinnslu þeirra á undanförnum árum er mjög hrósvert hvernig menn hafa komið þar að málum. Vert er að nefna hversu vel sú vinna var unnin af hálfu verkefnisstjórnarinnar og af hálfu einstakra stofnana og hagsmunasamtaka og aðila sem lögðu hönd á plóginn. Hitt er líka alveg ljóst að samkvæmt þeim lagaramma sem verkefnum var markaður var gert ráð fyrir því að kallað yrði eftir almennum athugasemdum áður en þingsályktunartillaga yrði lögð fram og að hún yrði lögð fram af ráðherrunum sameiginlega að undangengnu því ferli. Það var beinlínis gert ráð fyrir því að tekið yrði tillit til þeirra athugasemda sem fram kæmu í því ferli. Það er lagaramminn sem snýr að málinu.

Ég get ekki (Forseti hringir.) fallist á að með þeirri ákvörðun að taka sex (Forseti hringir.) kosti og flytja þá úr nýtingu í bið, þ.e. ekki (Forseti hringir.) flytja eitthvað úr nýtingu í vernd eða (Forseti hringir.) úr vernd í nýtingu heldur einungis (Forseti hringir.) úr nýtingu í bið, (Forseti hringir.) sé verið að (Forseti hringir.) kollvarpa einhverjum forsendum.