141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagvöxtur næstu ára verður að vera drifinn áfram af þekkingu vegna þess að við verðum að fá meira virði fyrir hvert starf en við fáum núna. Það er eitt höfuðvandamál íslensks efnahagslífs að við berum of lítið úr býtum fyrir of langan vinnudag.

Grundvallarforsendur í því efni eru aðrir þættir en nákvæmlega orkuvinnsla. Hún getur hins vegar hjálpað mjög til, hún getur stutt við vel borguð störf. En grundvallaratriðið er að við fáum nógu marga nýtingarkosti út úr þessari rammaáætlun (Gripið fram í.) fyrir næstu ár, þannig að það verður ekki vandamálið í hagvaxtarsköpun næstu ára. Svo þurfum við auðvitað líka að auka sókn okkar á erlenda markaði og styrkja við markaðssókn okkar. Þess vegna þurfum við, eins og hv. þingmaður veit mætavel af því hann er snjall maður, að skapa ný tækifæri í íslenskum landbúnaði, t.d. með aðild að Evrópusambandinu. Að opna þar útflutningsmarkaði og sætta okkur ekki við þá kyrrstöðu sem sumir þingmenn Framsóknarflokksins virðast vera sannfærðir um (Forseti hringir.) að sé besta umgjörðin um íslenskan landbúnað.

Þá má líka (Forseti hringir.) taka sömu dæmi úr sjávarútvegi þar sem ný tækifæri munu opnast (Forseti hringir.) þegar við fáum betri útflutningsmarkaði. (GBS: Þetta er hneyksli.)