141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og nefndarálitið sem þingmaðurinn leggur fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í fullyrðingar stjórnarþingmanna um skort á upplýsingum um áhrif á verndarsvæði eða svokallað „buffer zone“, sem er nýtt orðalag sem notað er til að rökstyðja færsluna á Skrokköldu- og Hágönguvirkjunum.

Telur hv. þingmaður að sama hugsun felist í því og sem verkefnisstjórn reyndi að gera með því að tala um víðerni og ósnortin víðerni og það mat allt saman, sem lögð var mikil áhersla á í vinnu verkefnisstjórnar? Var það ekki einfaldlega tæmt og búið að finna eitthvert nýtt orð sem notað er sem rökstuðningur í málinu?