141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í fyrri ræðu minni að þetta „buffer zone“ eða áhrifasvæði hefði enga lagastoð. Hvergi hefur verið um það fjallað hjá verkefnisstjórninni eða í lögum um meðferð rammaáætlunar. Ég tek því undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, þarna er verið að gera tilraun til að yfirfæra það sem búið var að skoða og talið hafði verið fullnægjandi. Menn taka virkjanirnar út með því að búa til nýtt hugtak sem hægt er að fela sig á bak við þrátt fyrir að verkefnisstjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að næg víðerni væru eftir. Ég hef spurt stjórnarþingmenn og ráðherra ítrekað hvað þetta þýði, hvað áhrifasvæðið sé stórt í kílómetrum, talið frá landamærum þjóðgarðsins, hversu umfangsmikið það sé að rúmmáli. Engin svör. Það veit enginn hversu stórt það er. Að mínu mati var orðið sett fram fyrst og fremst sem blekking til þess að menn gætu falið sig á bak við það þegar þeir tækju út fleiri virkjunarkosti.