141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um hvort ráðherra eða ráðuneytið hafi verið spurt út í það á nefndarfundum hvenær ákveðið hafi verið að víkja frá niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar, þá man ég ekki til þess að það hafi verið gert. En ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að sömu sjónarmið og sömu vinnubrögð voru einmitt viðhöfð við náttúruverndaráætlunina og þá tilraun sem gerð var, sem var liður í því að stofna hugsanlegan Hofsjökulsþjóðgarð og að sameina friðlýst svæði, Guðlaugstungur fyrir norðan og Þjórsárver og allt það svæði, í eitt svæði. Ég sat sem fulltrúi nú nokkra samráðsfundi á þeim tíma þegar málið var rætt í sveitarstjórn Hrunamannahrepps og satt best að segja tóku sveitarfélögin af skarið og vildu ekki taka þátt í þeirri vinnu lengur vegna þess að þau hræddust vinnubrögð ráðuneytisins og ráðherrans við Vatnajökulsþjóðgarð. (Forseti hringir.) Það er alveg klárt að þarna var verið, alveg eins og hv. þingmaður sagði, (Forseti hringir.) að gera tilraun til að hafa áhrif á verkefnisstjórnina í rammaáætlun til að koma (Forseti hringir.) Norðlingaöldu út úr verkefninu.