141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga að nefndarálitið sem fylgir þeirri samþykkt sem hér verður gerð mun að sjálfsögðu fara eftir þeirri ákvörðun sem verður tekin, þ.e. nefndarálitið er lögskýringargagn eða að minnsta kosti gagn sem skýrir vilja Alþingis, þess meiri hluta sem mun samþykkja tillöguna. Vegna þessa hef ég töluvert miklar áhyggjur af því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég ætla að fara aðeins yfir það á eftir.

Ég ætla hins vegar fyrst að nefna þá flokkun og breytingu sem gerð var á tillögunni. Það kemur fram á blaðsíðu 9 í nefndaráliti meiri hlutans að rætt er um flokkun formannahópsins svokallaða en svo kemur hin flokkspólitíska breyting sem er gerð á þessum tillögum. Sex virkjunarkostir á tveimur landsvæðum eru færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þeir eru taldir upp: Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun 1 og Hágönguvirkjun 2. Rökin fyrir því eru að það þurfi að meta einstaka áhrifaþætti.

Nú vil ég taka fram áður en lengra er haldið að varðandi virkjun í neðri hluta Þjórsár hefur mér ekki enn þá verið talin trú um eða rök færð fyrir því að eðlilegt sé og forsendur séu til að fara í neðstu virkjunina skulum við kalla hana, eins og ég gerði þegar ég skoðaði þetta. Ég held að þar þurfi menn að staldra við. Ég hef hins vegar ekki fengið sömu rök fyrir hinum.

Svo segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Ljóst er að varúðarsjónarmið búa að baki og er hér unnið í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins um að náttúran skuli njóta vafans. Ekki er nauðsynlegt að sanna með óyggjandi hætti að náttúran beri skaða af ákveðinni framkvæmd, heldur skulu hagsmunir náttúrunnar virtir þegar vísindaleg óvissa er fyrir hendi.“

Herra forseti. Nú verð ég bara að viðurkenna fávisku mína og kannski getur einhver svarað því hér hvort varúðarregla umhverfisréttarins sé þannig úr garði gerð að hún nái í rauninni yfir það sem mönnum dettur í hug að gera þegar kemur að náttúrunni. Mér finnst eins og verið sé að segja að ef það er minnsta óvissa um að einhver þáttur geti skaðað náttúruna að einhverju leyti, það virðist a.m.k. ekki skilgreint hér í hvaða hlutföllum eða hversu mikið og hversu lítið það getur verið, eigi ekki að taka tillit til mikilvægis samfélagsþátta eða þess að fólk búi kannski á þessum svæðum og vilji búa þar áfram, heldur eigi þegjandi og hljóðalaust að láta náttúruna njóta vafans.

Ég hef áhyggjur af þessu því víða um land er full þörf á að nýta náttúruna til að viðhalda byggð og til að samfélög geti þróast og eflst. Þar af leiðandi hef ég áhyggjur af því sjónarmiði.

Síðan kemur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur ástæðu til að árétta að um rannsóknir á kostum í biðflokki þurfi að gilda mjög skýrar reglur, sem kveði m.a. á um að ekki fari fram óafturkræft jarðrask eða hverjar þær framkvæmdir sem geti rýrt verndargildi svæðisins, enda kynni lokaniðurstaðan að verða sú að setja kostinn í verndarflokk.“ Hér er strax byrjað að setja biðflokknum, og þeim kostum sem þar eru, ákveðin skilyrði og ákveðnar reglur ef það má orða það þannig, a.m.k. ákveðin skilyrði.

Það er nú aldeilis ekki þannig að þetta sé það eina sem er sett fram. Það segir síðan segir á blaðsíðu 10 í 9. kafla: „Það er eðli virkjunarframkvæmda að þær valda umhverfistjóni.“ Ég vil nú leyfa mér að segja, herra forseti, að það hlýtur að minnsta kosti stundum að vera matsatriði hvort virkjunarframkvæmd valdi tjóni eða hreinlega bæti umhverfið. Virkjanir eins og Skatastaðavirkjun hafa verið nefndar hér, þar er gert ráð fyrir lóni fyrir ofan Skagafjörð, uppi á heiðunum þar sem sandur og grjót mundu fara undir lónið og sáralítið eða ekkert af uppgræddu landi. Það er gert ráð fyrir að vernda þar gríðarlega mikilvægar náttúruminjar, Orravatnsrústir eru þær kallaðar. Ég vil meina að það muni nú fegra umhverfið þarna uppi á fjöllunum og væntanlega draga úr blæstri, sandfoki og slíku. Ég hugsa að það yrði til bóta ef sú leið verður farin, a.m.k. þarna upp frá.

Mér finnst að sem er gefið í skyn hæpið. Síðan kemur, herra forseti, á blaðsíðu 11 að það sé ekki þörf á „að virkja fyrir innanlandsmarkað nema ákveðinn verði nýr stóriðjurekstur.“ Það er talið að það séu 100 megavött af umframorku í kerfinu. Svo eru aðrir sem segja stundum að það sé nú ekki svo mikið, þetta sé kannski 50 plús en það er einhver umframorka í kerfinu, það er alveg ljóst. Við þurfum kannski ekki stóriðju í þeirri mynd sem andstæðingar álvera hafa náð að teikna upp á Íslandi. Ef við ímyndum okkur það sem stóriðju þarf nú kannski ekki nema lítinn iðnaðarkost, ekki stóriðju sem notar mikla orku, til að klára þá upp alla þá umframorku. Það kann vel að vera að það sé fyrirtæki sem þarf margt starfsfólk. Ég þori ekki alveg að fullyrða það en mig minnir nú að fyrirtækið Becromal á Akureyri noti um 70 megavött. Menn sjá að ef slíkt fyrirtæki vildi setja hér á fót verksmiðju mundi umframorkan klárast.

Ég held því að við þurfum að gera ráð fyrir því að í allra næstu framtíð þurfi að virkja. Við hljótum að gera þá kröfu að það liggi að minnsta kosti einhvers konar áætlun fyrir um það og að við munum sjá fyrir nýtingu, ég held að það sé bara eðlilegt að krefjast þess. Ég veit ekki betur en að það séu nokkrir erlendir aðilar áhugasamir um að kaupa hér orku og einhverjir jafnvel að stækka við sig. Þar af leiðandi held ég að það sé fullbratt að halda því fram að ekki sé þörf á að virkja nema að ákveðinn verði nýr stóriðjurekstur. Ég held að það þurfi enga stóriðju til að klára eða setja okkur í bobba með þá orku sem er til í kerfinu í dag.

Við getum svo alveg tekið umræðu um hvort það sé komið nóg af ákveðnum tegundum af iðnaði á Íslandi eða hvort við viljum halda áfram á þeirri braut eða eitthvað slíkt. Ég held persónulega að menn eigi að ljúka við að byggja álverið í Helguvík og standa við þær væntingar sem eru um það. Ég veit að það mun hafa mikil áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum og á suðvesturhorninu en ég tek líka undir að þá eigi menn nú að velta því fyrir sér hvort komið sé nóg af slíkri starfsemi á Íslandi og reyna að finna aðra kosti til að nýta orkuna hérna. Það segi ég nú fyrst og fremst vegna þess að það er kannski ekki ráðlegt að reiða sig um of á einn iðnað. Það er ekki vegna þess að ég sé á móti áliðnaði, alls ekki. Ég er fyrst og fremst að hugsa um það út frá því að væntanlega er skynsamlegt að við einbeitum okkur að því að skoða aðra möguleika til að selja orku.

Kafli 10 er mjög athyglisverður og heitir Álitaefni um orkunýtingu háhitasvæða. (Gripið fram í: Í nefndaráliti.) Í nefndaráliti meiri hlutans á blaðsíðu 13, eru að mínu viti lagðar fram slíkar kröfur. Ég ítreka að ég lít á þetta sem lögskýringargagn eða gagn sem skýrir vilja Alþingis. Kröfur á háhitasvæði, ekki bara í biðflokki heldur jafnvel nýtingarflokki líka. Ég ætla ekki að segja að það sé neitt óeðlilegt og ekki heldur að það sé ekki hægt að uppfylla þær en mér finnst það til dæmis segja um þau svæði sem eru fram undan að væntanlega muni taka drjúga stund að koma þeim í það form að hægt sé að fara í að nýta jarðhitann.

(Forseti (RR): Svo háttar til að fjórir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns og er því ræðutími styttur í eina mínútu í hvert sinn.)