141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það var nokkuð undarlegt að heyra yfirlýsingar um að munnlegt samkomulag væri um eitthvert stopp. Það kom greinilega flatt upp á margan stjórnarþingmanninn líka.

Tel ég mig bundinn af þessari rammaáætlun eða því sem hér verður samþykkt?

Ég tel mig ekki bundinn að öðru leyti en því að Alþingi mun væntanlega gera einhverja samþykkt. Ég hlýt að upplýsa bara um það hér að ég tel að þá verði mjög mikilvægt að breyta þeirri samþykkt gangi þetta eftir, þar af leiðandi tel ég mig ekki bundinn til þess að fylgja þessari stefnu eftir næsta kjörtímabil. Ég orða það bara þannig að ef ég verð í þeirri stöðu að vinna hér að atvinnumálum held ég að þetta geti aldrei gengið. Þar af leiðandi er ekki hægt að fylgja þessu eftir og þar af leiðandi verður að breyta þessu. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég veit ekki hvernig menn munu gera það eftir lögformlegum og réttum leiðum en þessu verður að breyta því að þetta er pólitísk stefna (Forseti hringir.) ríkisstjórnar sem ekki verður aftur kosin.