141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði hér síðast. Ég ætla rétt að vona að þessi ríkisstjórn verði ekki kosin aftur.

Hitt er annað mál að ferlið var þannig að verkefnisstjórnin leitaði umsagna meðal fagaðila innan sem utan nefndarinnar og allt ferlið var mjög opið. Síðan fór það inn til ríkisstjórnar og þar lokaðist það og eftir það mátti varla spyrja um það. Menn reyndu að þagga allt niður þegar umræðan braust fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann að tvennu. Ef þetta verður samþykkt, mun sú tillaga þá stuðla að því að hagvöxtur verði minni til skemmri og lengri tíma á Íslandi? Síðan er hitt hvort hann vilji frekar að málinu verði vísað til ríkisstjórnar, eins og fulltrúi framsóknarmanna í nefndinni hefur lagt til — ég held að það sé óhemjumikil bjartsýni af hálfu þess ágæta þingmanns — eða telur hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson að það sé kannski skynsamlegra að leita til verkefnisstjórnarinnar á ný og biðja hana um að forgangsraða og þannig um leið binda þingmenn alveg þvert á flokka í samræmi við þær tillögur?