141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta hv. þingmann og hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði aldrei um munnlegt samkomulag, hún talaði um þögult samkomulag. Það er ný tegund af samkomulagi. Ríkisstjórnin hefur gert skrifleg samkomulög og svikið þau. Hún hefur gert munnleg samkomulög og svikið þau og var nú orðin uppiskroppa með form af samkomulagi sem hún gat gengið á bak orða sinna með og þess vegna var fundin upp ný gerð af samkomulagi sem heitir þögult samkomulag.

Þetta var þó ekki aðalerindið, heldur hitt að það er rétt sem hv. þingmaður sagði um varúðarregluna. Það er vandmeðfarið hugtak enda er það þannig að í umfjöllun atvinnuveganefndar um eflingu græna hagkerfisins er mjög ítarlega fjallað um þetta. Það er vakin athygli á því að skilningur reglunnar geti boðið heim hættu á að beiting hennar innan stjórnkerfisins dragi einmitt úr möguleikum þjóðarinnar til að nýta náttúruauðlindir jafnvel þó að engar vísindalegar sannanir liggi fyrir um skaðsemi tiltekinnar starfsemi.

Með öðrum orðum lögðum við áherslu á að þetta er vandmeðfarið hugtak sem hægt er að snúa út úr og (Forseti hringir.) þess vegna er mjög hæpið að byggja á því nema þá fyrir liggi nákvæmlega hver skilningurinn er hverju sinni.