141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég nefndi varúðarregluna vegna þess að það stakk mig að það sé verið að vitna í og leita eftir rökstuðningi þarna. Þegar menn styðjast við þessa reglu eða einhverja aðra hlýtur það að vera eilíft matsatriði. Ég nefni að við erum að fjalla um stjórnarskrána í þingnefndum og í því frumvarpi er til dæmis talað um verulegt valdaframsal. Ég spyr: Hver er túlkunin á því? Hver er þá túlkunin á varúðarreglunni? Hver eru viðmiðin sem þarf að hafa?

Þau viðmið kunna að vera einhvers staðar til þótt ég hreinlega þekki þau ekki eða hafi ekki kynnt mér þau og þá mun það örugglega koma í ljós. Eins og þetta liggur fyrir í nefndaráliti meiri hlutans stingur þetta hins vegar nokkuð í augu.

Mér finnst eins og þemað í gegnum nefndarálitið sé það að leggjast á sveif með ráðherrunum sem drógu úr nýtingarflokknum og (Forseti hringir.) reyna að fjölga þeim kostum sem eru í biðflokki og væntanlega þá síðar í verndarflokki.