141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við það sem ég var að fjalla um varúðarregluna að atvinnuveganefnd skoðaði mjög vel hvernig þessu ákvæði hefur verið beitt og hvaða skilningur sé á því á alþjóðlegum vettvangi. Inntak þessarar varúðarreglu hefur fengið heldur meira vægi, en engu að síður er augljóst að þetta er mjög matskennt. Þess vegna var þetta megin- og lokaniðurstaða nefndarinnar í nefndaráliti um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi í fyrravor eftir að hafa fjallað býsna ítarlega um þau mál, með leyfi virðulegs forseta:

„Að þessu sögðu er það mat nefndarinnar að ekki verði að svo komnu máli gengið lengra en að árétta hér það sjónarmið fræðimanna og vettvanga alþjóðasamstarfs að varúðarreglunni skuli því aðeins beita að vísbendingar um hættu séu mögulega til staðar og henni megi aldrei beita á handahófskenndan hátt.“

Mér finnst hins vegar að hér sé gengið mun lengra en þessi skilningur atvinnuveganefndar bendir til. Var þessi skilningur áréttaður með því að tillaga um eflingu græna hagkerfisins var samþykkt á Alþingi þannig að það er búið (Forseti hringir.) að ramma inn tiltekinn skilning Alþingis á þessu máli og þess vegna er afar hættulegt að fara inn á þær brautir sem mér finnst vera farið með þeirri tillögu sem við erum (Forseti hringir.) hér að ræða.