141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi Skatastaðavirkjun er það rétt að þar er talað um flæðiengjar. Vert er að hafa það í huga að þegar Héraðsvötnin eru í ham er meiri hluti Skagafjarðar þar undir, þannig er nú hæð landsins þar.

Upp kom sú tillaga fyrir nokkrum árum að vernda allar þessar engjar, að vernda nánast Skagafjörð allan frá fjöllum og út í sjó. Því var algjörlega hafnað af landeigendum, sveitarstjórn og öðrum sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Ég er ósammála skoðun verkefnisstjórnarinnar. Eins og ég hef áður sagt er ég ósammála mörgu í vinnu hennar og flokkunum en ákvað að sætta mig við það engu að síður í von um að einhver sátt næðist. Síðan hefur annað hljóð komið í strokkinn, að sjálfsögðu. En ég held að þarna fari menn býsna langt í að meta umhverfisáhrif.

En ég sakna þess að (Forseti hringir.) samfélagsþátturinn sé ekki metinn jafnhátt, þ.e. kosturinn af því að efla samfélagið þarna með virkjunum, það finnst mér vanmetið.